Tilkynning

Home / Óflokkað / Tilkynning

Við hjá UN Women á Íslandi viljum koma á framfæri að ágóði FO söluvarnings undanfarinna fjögurra ára telur 56 milljónir króna sem runnu beint til verkefna UN Women sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum. Ágóðinn safnaðist við sölu á FO húfum en Vodafone hefur styrkt FO herferðir UN Women á Íslandi veglega og greitt allan kostnað við framleiðslu húfanna og fyrir vikið gert UN Women á Íslandi kleift að senda allan söluágóða beint til verkefna. Þess ber að geta að UN Women hefur ekki greitt fyrir þjónustu auglýsingastofa í FO herferðum frá upphafi.

Styrktaraðilar UN Women eru hátt í 10 þúsund talsins. Fjáröflunarkostnaður samtakanna, þar á meðal launakostnaður starfsfólks fer í að viðhalda og fjölga í hópi ljósbera. UN Women á Íslandi leggur mikið upp úr að eiga í góðum samskiptum við styrktaraðila sína og upplýsa reglulega hvert fjárframlög þeirra renna, til valdeflingar kvenna og stúlkna.

Í það minnsta 72% af söfnunartekjum hvers árs hafa runnið beint til verkefna UN Women á heimsvísu. Því sem eftir stendur er ráðstafað í frekari vöxt starfs UN Women á Íslandi sem felur meðal annars í sér vitundarvakningu og herferðir. Fyrir vikið jukust söfnunartekjur af söluvarningi og mánaðarlegum framlögum um 89% á árunum 2016-2019.

Fjárfesting í fjáröflun hefur skilað sér í mikilli meðvitund og fjölgun ljósbera, mánaðarlegra styrktaraðila á síðastliðnum árum. Vegna stuðnings almennings, sendi UN Women á Íslandi hæsta framlag allra landsnefnda óháð höfðatölu, til verkefna UN Women síðastliðin ár. Fyrir það er starfsfólk samtakanna virkilega þakklátt.

Related Posts