Palestínskir saksóknarar tryggja þolendum ofbeldis aðgengi að réttlæti

Home / Dæmi um styrktarverkefni / Palestínskir saksóknarar tryggja þolendum ofbeldis aðgengi að réttlæti

Palestine Mehwar 400x267UN Women þjálfaði hóp saksóknara í að meðhöndla mál er tengjast heimilisofbeldi og kynbundu ofbeldi. Fimmtán saksóknarar voru valdir til að sinna eingöngu ofbeldismálum í hverjum umdæmi.

Þegar Zahara skildi við seinni eiginmann sinn, læsti fjölskylda hennar hana inni í yfirgefnu húsi í meira en fjögur ár áður en lögreglan frelsaði hana úr ánauð.
Hún var hvött til þess að leggja fram kæru á hendur fjölskyldu sinni en gerði það ekki. „Ég vildi ekki verða þeim til frekari skammar,“ útskýrði Zahara.
Bróðir Zahöru var skikkaður til að skrifa undir skuldbindingu þar sem hann lofaði að beita hana ekki frekara ofbeldi. „Ég treysti þeim og trúði því að ástandið myndi batna en það gerði það ekki.“

Saga Zahöru er ekki einsdæmi. Í rannsókn sem gerð var árið 2011 kom fram að ein af hverjum þremur konum sem upplifað hafa ofbeldi halda því leyndu eða leita frekar hjálpar til eigin fjölskyldu en fagaðila eða lögreglu.

„Fólkinu í þorpinu fannst ég hafa kastað rýrð á heiður fjölskyldunnar þegar lögreglan skarst í leikinn þó það efaðist enginn um að fjölskyldan hefði beitt mig ofbeldi,“ segir Zahara.

Skömmin, sögulegt ójafnrétti kynjanna og þrýstingur frá fjölskyldu gerir konum og stúlkum það erfiðara fyrir að tilkynna ofbeldi sem og að leita aðstoðar séu þær beittar ofbeldi. Lagaramminn er ófullnægjandi og ekki er hægt að tryggja vernd fyrir konur sem leita sér aðstoðar. Vegna skorts á trausti í garð lögreglu og réttarkerfisins líta flest ofbeldisbrot gegn konum aldrei dagsins ljós.

Dareen Salheyeh, aðalsaksóknari segir einnig að faglegri sérfræðiþekkingu á kynbundnu ofbeldi sé verulega ábótavant. Meðferð slíkra mála krefst skilnings á málaflokknum og vilja af hálfu saksóknara.
Til að sporna við þessu var hóp saksóknara boðið á þriggja mánaða námskeið á vegum UN Women þar sem þeir hlutu fræðslu í meðferð kynferðisbrotamála. Einblínt var á alþjóðlega sáttmála eins og Kvennasáttmálann og hvernig megi nota hann við meðferð slíkra mála.
Í kjölfar námskeiðs UN Women voru 15 saksóknarar valdir af dómsmálaráðherra Palestínu til þess að vinna eingöngu að kynferðisbrotamálum sem og að endurskoða lagarammann í hverju umdæmi. „Við sem fagaðilar megum ekki láta persónulegar skoðanir standa í vegi fyrir því að réttlæti nái fram að ganga. Þá breytist samfélagið okkar aldrei,“ segir Dareen.
„Þolendur ofbeldis halda oft og tíðum mikilvægum upplýsingum fyrir sjálfa sig því þeir þekkja ekki réttindi sín. Við höfum kortlagt stofnanir sem bjóða upp á sálfræðiaðstoð og lögfræðiþjónustu fyrir þolendur og eru þeir í réttum höndum hjá þessum fagaðilum. Skýrslur viðeigandi fagaðila eru síðan notaðar við réttarhöldin,“ segir Dareen og heldur áfram: „Konunum er þá boðið upp á stuðning eftir að rannsókninni lýkur og aðstoð við að koma undir sig fótunum á ný eftir mikið áfall.“

Zahara fékk stuðning frá Mehwar-athvarfinu sem vinnur náið með konum sem flúið hafa heimili sín vegna ofbeldis. Í athvarfinu, sem styrkt er af UN Women, fékk hún þann stuðning sem hún þurfti til að byggja upp líf sitt eftir mikla einangrun og höfnun fjölskyldunnar. Stuðningsliðar í Mehwar-athvarfinu aðstoðuðu m.a. Zahöru við að finna sér vinnu. „Mér hefði aldrei tekist að koma undir mig fótunum á nýjan leik án þess að þekkja réttindi mín. Löggjöf sem verndar konur og þjónusta sem tryggir öryggi þolenda ofbeldis skiptir sköpum en einnig er mikilvægt að allir þeir sem koma að slíkum málum hafi hlotið viðeigandi þjálfun,“ segir Zahara stolt.
Þú getur lagt konum eins og Zahöru lið með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili.

Related Posts