fbpx

Lífshættulegar vinnuaðstæður

Heim / Fréttir / Lífshættulegar vinnuaðstæður

Ég er búin að vera að hugsa mikið um Reshmu frá Bangladess undanfarið. Reshma lifði í 17 daga undir rústum átta hæða fataverkssmiðju í borginni Dhaka.

Reshma var stödd í bænaherbergi verksmiðjunnar þegar byggingin hrundi til grunna en hún náði að halda lífi með því að anda í gegnum pípu sem lá út um rústirnar og borða þurrmat sem hún fann á látnu samstarfsfólki sínu. Yfir eitt þúsund samstarfsfélagar hennar létu lífið.Bangadesh_-_irinnews.org

Verksmiðjuhúsnæðið Rana Plaza var byggt í mýri og degi áður hafði starfsfólk haft áhyggjur af sprungum sem höfðu myndast í veggjum. Yfirmennirnir hótuðu hins vegar að draga 5.000 þúsund krónur af mánaðarlaunum þeirra ef þau mættu ekki í vinnuna en mánaðarlaun kvenna í fataverksmiðjum eru frá 5.000 upp í 74.000 krónur. Daginn eftir hrundi húsið til grunna þegar kveikt var á rafmagnsmótor með fyrrgreindum afleiðingum.

Bangladess er fátækt land og þar er atvinnuleysi meðal kvenna 65 prósent. Helstu atvinnutækifæri fátækra ólæsra kvenna er að starfa í einni af 5.000 fataverkssmiðjum þar í landi. Þrátt fyrir stórhættulegt vinnuumhverfi og lág laun eru þessi störf eftirsóknarverð. Fataverksmiðjurnar velta yfir 18 milljörðum árlega og þessi starfsemi hefur vaxið ört á undanförnum árum í Bangladess.

Könnun sem gerð var fyrir tveimur árum meðal kvenna sem vinna í fataverksmiðjum leiddi í ljós að 70% aðspurðra höfðu verið beittar andlegu ofbeldi og 40% tilkynntu um líkamlegt ofbeldi af hálfu yfirmanna. Einn þriðji kvennanna hafði orðið fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustað. Þessar konur höfðu miklar áhyggjur af því að missa störf sín á meðgöngu en aðeins helmingur þeirra hafði fengið fullt fæðingarorlof sem samkvæmt lögum er 100 dagar.

Stórar verslunarkeðjur líkt og H&M og Inditex (sem á m.a. Zöru) hafa brugðist við hörðum gagnrýnisröddum eftir hrun Rana Plaza verksmiðjunnar. Tilkynnt var á dögunum að H&M hafi skrifað undir samning þess efnis að þau ætli að ábyrgjast öryggi starfsmanna og viðhalda húsnæðunum. Ríkisstjórn Bangladess samþykkti einnig á dögunum lög sem gerir starfsfólki kleift að mynda verkalýðsfélög án leyfis verksmiðjueigenda. Á sama tíma tilkynnti ríkisstjórnin einnig áætlun um að hækka lágmarkslaun úr 5.000 krónum.

pakistanskar_stulkur_a_vinna

Þetta eru jákvæðar breytingar. Loforð sænska fatarisans H&M um að viðhalda verksmiðjunum í Bangladess og hækka lágmarkslaun fyrir 14 tíma vinnudag, sex daga vikunnar, létti samviskubitinu yfir að vera í fötum sem saumuð voru af konum í Bangladess í augnablik. En vandamálið eru auðvitað miklu stærra. Bág staða kvenna og stúlkna í Bangladess á öllum sviðum samfélagsins og skortur á raunverulegum tækifærum til að bæta líf sitt og fjölskyldna þeirra rekur konur til að stunda vinnu við lífshættulegar aðstæður. Til þess að sporna við þessu þarf meira en loforð stórfyrirtækja um bætt vinnuskilyrði.

UN Women vinnur að því að uppræta kynbundið ofbeldi í Bangladess sem og auka atvinnutækifæri kvenna. Brýnt er að draga úr mæðradauða en SÞ áætla að 570 af hverjum hundrað þúsund konum látast við barnsburð.  Stór hluti þeirra mæðra sem látast eru aðeins unglingsstúlkur sem hafa verið gefnar í hjónaband þrátt fyrir ungan aldur. UN Women ásamt öðrum stofnunum SÞ og ríkisstjórnin standa fyrir átaki þar sem foreldrar eru hvattir til að leyfa dætrum sínum að sækja menntun ekki síður en sonum sínum. Átakið hefur þegar borið árangur og nú eru jafn margar stúlkur og drengir í grunnskóla en enn þarf að bæta kynjahlutfallið í framhaldsskólum. Það er margsannað að mennt er máttur.

Það er nauðsynlegt að hafa í huga að stórfyrirtækin tóku ekki við sér fyrr en a.m.k eitt þúsund og eitt hundrað manns létust við vinnu sína og þá voru settar lágmarkskröfur um vinnuöryggi.

Hvað þarf að eiga sér stað til þess að við gerum kröfu um að konur í Bangladess búi við grunnmannréttindi?

Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra landsnefndar UN Women á Íslandi

Related Posts