fbpx

Líbía: Fimm þúsund látin, meira en tíu þúsund saknað

Heim / Fréttir / Líbía: Fimm þúsund látin, meira en tíu þúsund saknað

Hamfaraflóð áttu sér stað í Líbíu um helgina. Óttast er að um 20 þúsund hafi látist eða slasast í flóðunum.

Fimm þúsund, hið minnsta, hafa farist og meira en tíu þúsund er enn saknað eftir gríðarleg flóð í Líbíu. Flóðin urðu í kjölfar óveðurslægðarinnar Daniels sem fór yfir stóran hluta Líbíu á sunnudag. Strandborgin Derna, í austurhluta landsins, varð hvað verst úti í óveðrinu. Tvær stíflur ofan við borgina gáfu sig með þeim afleiðingum að gríðarlegur vatnsflaumur lagði stóran hluta borgarinnar í rúst.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna vinna í samstarfi við hjálparsamtök og yfirvöld í Líbíu við að veita neyðaraðstoð í kjölfar hamfaranna. Stjórnarfarslegt umhverfi Líbíu er flókið, því landið lýtur stjórn tveggja andvígra stjórnvalda; annars vegar stjórnvalda í höfuðborginni í Trípólí, sem eru viðurkennd af alþjóðasamfélaginu; og hins vegar þinginu sem fer með völd í austurhluta landsins.

Samkvæmt talsmanni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) vinna Sameinuðu þjóðirnar að því að koma vistum til hamfarasvæðisins og veita þeim sem misst hafa heimili sín skjól og neyðaraðstoð. Þá er unnið að því að koma upp sjúkratjöldum og færanlegum heilsugæslum (e. Mobile clinics) svo hægt sé að sinna slösuðum.

Bjuggu þegar við slæm skilyrði

Stór hluti þeirra sem misstu heimili sín í flóðunum, bjuggu þegar við bágar aðstæður. Líbía hefur á undanförnum árum orðið nokkurs konar millilending fyrir fólk á flótta, m.a. frá ríkjum Afríku, áður en það leggur upp í háskaför yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. Sameinuðu þjóðirnar óttast að þessi hópur fólks hafi orðið illa úti í flóðunum og óveðrinu sem fylgdi Daniel.

Samkvæmt Paul Dillon, talsmanni Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar (IOM), dvelja um 600 þúsund einstaklingar á flótta í Líbíu þessa stundina. Stofnunin telur að mörg þeirra hafi orðið fyrir miklum áhrifum óveðursins. En sökum þess hve illa hefur gengið að komast á hamfarasvæðin, hefur ekki verið hægt að meta stöðuna með skilmerkum hætti.

UN Women hluti af neyðarviðbragði Sþ

Á síðasta ári var UN Women formlega tekin inn sem hluti af IASC, aðgerðarhópi stofnana Sameinuðu þjóðanna sem hafa það hlutverk að bregðast við neyðarástandi og hamförum. Hlutverk UN Women í IASC er að gæta þess að sértækar þarfir kvenna, stúlkna og annarra hliðsettra hópa séu ávallt hafðar að leiðarljósi þegar neyðaraðstoð er veitt.

Þá sinnir UN Women ýmsum verkefnum í ríkjum Norður-Afríku, þ.m.t. Marokkó, Túnis og Alsír, og starfrækir þar landsskrifstofu. Mikil neyð ríkir á þessu svæði nú um mundir, því jarðskjálfti að stærð 6,8 reið yfir svæði Marokkó fyrir tæpri viku síðan.

Þú getur stutt við neyðarstarf UN Women í Marokkó og Líbíu hér.

 

 

 

Related Posts