fbpx

Sima Bahous: Jafnrétti er raunhæfur möguleiki á viðráðanlegu verði

Heim / Fréttir / Sima Bahous: Jafnrétti er raunhæfur möguleiki á viðráðanlegu verði

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, sagði í ræðu sem hún hélt við aðalfund framkvæmdastjórnar UN Women, sem haldinn var í New York dagana 12. – 13. september síðastliðinn, að staða kvenna og stúlkna í heiminum væri grafalvarleg og að langt væri í að kynjajafnrétti náist.

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, flytur opnunaryfirlýsingu á fundi framkvæmdastjórnar UN Women í höfuðstöðvum SÞ, 12. september 2023. Mynd: UN Women/Ryan Brown.

„Þegar á heildina er litið fer okkur aftur þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Engin af markmiðunum sem sett voru fyrir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer fimm eru nálægt því að nást,” sagði Bahous. 

Bahous gerði inntak nýrrar skýrslu um stöðu heimsmarkmiðanna að umræðuefni og sagði meðal annars að lagt hafi verið mat á kostnað kynjajafnréttis – það kosti ekki nema 360 milljarða Bandaríkjadala að loka kynjabilinu og útrýma kynjamisrétti. „Ég segi „ekki nema“ vegna þess að uppæðin er aðeins 1/5 af þeirri upphæð sem Bandaríkin eyða í útgjöld vegna hersins árlega, og bara ríflega helmingur af því sem heimurinn eyðir í kaffi á ári hverju,“ sagði Bahous. „Jafnrétti er því raunhæfur möguleiki á viðráðanlegu verði – og augljós fjárfesting ef okkur er raunveruleg alvara með að uppfylla þau loforð sem við höfum gefið, ekki eingöngu konum og stúlkum, heldur öllum.” 

Bahous segir skýrsluna gefa skýra mynd af því mikla umfangi ójöfnuðar og misréttis sem er við lýði í heiminum. Til að mynda búa 99% kvenna heimsins í löndum þar sem kynjabilið er mikið og valdefling kvenna er lítil. Samkvæmt mælingum eru konur ekki efldar til að uppfylla nema 60% af möguleikum sínum – ennfremur skorar hin venjulega kona 75% lægra en hinn venjulegi karl þegar kemur að lífskjaramælingum. Bahous áréttaði að slíkar tölur ættu að vekja okkur öll til umhugsunar og kröfur um breytingar væru aðkallandi. 

 

Staðan tekin á framgangi jafnréttismála

Þann 17. september næstkomandi mun ríkisstjórn Íslands, ásamt ríkisstjórn Tansaníu og UN Women, leiða „Midpoint“ viðburð í New York. Viðburðurinn markar miðpunkt verkefnisins Kynslóð jafnréttis, alþjóðlegs átaks sem UN Women leiðir ásamt ríkisstjórnum Mexíkó og Frakklands, og hefur það markmið að hraða framförum á þeim sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur. Viðburðurinn hefst kl. 14.00 að íslenskum tíma og verður hægt að fylgjast með honum í beinu streymi.

Þá fer einnig fram 78. fundur Allsherjarþings Sameinuðu þjóðinna (UNGA 78) dagana 19. – 29. September, þar sem meðal annars verður farið yfir stöðu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. 

Related Posts
Anna Steinsen