Konur á flótta eru dýrmætur mannauður

Home / Fréttir / Konur á flótta eru dýrmætur mannauður

Í ljósi þess að aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum var mikill fókus á stöðu kvenna á flótta á fundi kvennanefndar SÞ í ár. Rætt var um mikilvægi þess að tryggja konum á flótta og/eða á vergangi efnahagslegt sjálfstæði og gera þeim kleift að halda í reisn sína. Því þegar konur fá að blómstra á öllum sviðum samfélagsins, þ.á.m. í starfi, hagnast þær ekki eingöngu sjálfar heldur hagnast fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild sinni.

Þessi árlegi fundur skapar mikilvægan vettvang fyrir konur og karlmenn frá öllum heimshornum að koma saman til að ræða stöðu kvenna og mögulegar leiðir til að efla konur á öllum sviðum samfélagsins. Flóttamannahjálp SÞ, Women´s Refugee Commission og Oxfam héldu m.a. sérstakan fund undir yfirskriftinni, Efnahagsleg valdefling kvenna á vergangi, þar sem rætt var um bestu leiðirnar við að útvega konum í þessari stöðu atvinnu og ýta undir efnahagslegt sjálfstæði þeirra. Ein þeirra sem vakti athygli viðstaddra starfar fyrir kvennasamtök í Írak. Orð hennar og nærvera voru sterk og staðreyndirnar sem hún kom með sláandi. Ein og hálf milljón kvenna er á flótta og/eða vergangi innan Íraks. Yfir milljón kvenna í Írak eru ekkjur og 750 þúsund stelpur undir 15 ára aldri hafa þurft að hætta í skóla. Auk þess eru 60 þúsund konur í Írak sem hafa verið giftar á barnsaldri, á aldrinum 15-18 ára. Hún beindi sjónum að skelfingarástandinu í Mosul í Írak þar sem um 50 þúsund manns hafa flúið borgina daglega,  undanfarna daga. En fólksflóttinn frá borginni hófst um miðjan október 2016 þegar öryggishersveitir íraska hersins ásamt hersveitum Kúrda réðust inn í borgina með því markmiði að ná henni úr höndum ISIS. Augu írösku konunnar fylltust tárum er hún lýsti þeim hræðilega og grimma veruleika sem Yazidi konur hafa þurft að þola af hendi ofbeldismanna vígasveita íslamska ríkisins í Írak. Talið er að vígamennirnir hafi haldið um 3500 konum föstum og notað sem kynlífsþræla undanfarin rúm tvö ár. Enn er ekki vitað um fjölda horfinna kvenna. Þegar hún lýsti örlögum þeirra sem sloppið hafa nýlega úr prísundinni og þurft að snúa tilbaka óléttar brustu fleiri flóðgáttir í salnum. Á þessu augnabliki varð neyðin gríðarlega áþreifanleg og átakanleg.

Hún sagði konur í Írak vorki vera þátttakendur í ákvarðanatökum né friðarviðræðum auk þess sem þær hafi takmarkaðan aðgang að vinnumarkaðnum í Írak. Vegna bágrar stöðu sína á vinnumarkaði og námslega velja þær að vera heima og sinna húshaldi og heimilisverkum. Vegna takmarkaðra réttinda innan ríkisins sem flóttakonur leiðast þær oftar út í að starfa við ýmis hættuleg og ólögleg störf. Konur í þessari stöðu eru einnig mun líklegri til að þurfa að þola kynbundið ofbeldi og tala þeirra stúlkna sem eru giftar barnungar fer því miður hækkandi. Konur á vergangi eða á flótta innan Íraks eru því í tvöfaldri jaðarstöðu.

Samhljómur var á fundinum um að útvega þurfi konunum atvinnutækifæri sem teflir þeim ekki í hættu. Fram kom að mikilvægast af öllu er að ræða við konurnar sjálfar áður en þeim er veitt aðstoð við að koma undir sig fótunum og fara inn á vinnumarkaðinn. Eins kom fram að það þurfi að skapa konum raunveruleg og arðbær störf, sem eru samkeppnishæf og skapi þjónustu sem eftirspurn er eftir. Því sé mikilvægt að vera sniðugur og nýjungagjarn í atvinnusköpun, koma augu á gloppur á mörkuðum svo að störfin skapi sjálfbærni til framtíðar.

Síðast en ekki síst þarf að byggja upp hæfni hjá konum á flótta sem nýtist þeim bæði í nýju landi eða í heimalandi sínu ef þær kjósa að snúa aftur.  En sú aðferðafræði að efla konur á flótta á þennan hátt er sú sama og UN Women vinnur eftir í svokölluðum „cash for work“ verkefnum í flóttamannabúðunum t.a.m. í Za´atari í Jórdaníu, Gado-búðunum í Kamerún og Lusenda í Austur-Kóngó. Um er að ræða atvinnuskapandi griðastaði fyrir konur þar sem þær fá laun fyrir heiðarleg störf og hljóta um leið sjálfseflingu. Þeim gefst þar einnig tækifæri til að fá smálán til að koma rekstri af stað sem gerir þeim kleift að stofna fyrirtæki sem ýtir undir sjálfbærni þeirra. Konur á flótta eru dýrmætur mannauður. Tíma þeirra á flótta má ekki líta á sem glataðan heldur tímabil  uppbyggingar og sjálfseflingar sem nýtist til framtíðar.

Related Posts