Kynjajafnrétti er keppnis myndbandið sýnt í SÞ í New York

Home / Fréttir / Kynjajafnrétti er keppnis myndbandið sýnt í SÞ í New York


Meginþema á kvennanefndarfundi SÞ í ár er efnahagsleg valdefling. Rætt hefur verið um hvernig styðja megi við konur og stúlkur og valdefla þær efnahagslega á öllum sviðum um allan heim út frá ólíkum sjónarhornum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna og nágrenni þessa vikuna.

Eftir að snjóstormurinn Stella gekk yfir borgina hélt dagskrá fundar kvennanefndar SÞ áfram á miðvikudaginn 15. mars. Dagurinn hófst á erindi sem Inga Dóra, framkvæmdastýra flutti á fundi sem UNFPA (Mannfjöldasjóður SÞ) skipulagði þar sem ræddar voru leiðir til að hvetja karlmenn í baráttunni fyrir kynjajafnrétti og hvernig styrkja megi borgaralegt samfélag og þátttöku yfirvalda að slíkum aðgerðum. Samtökin Men Engage Alliance og Promundo voru einnig með erindi á fundinum þar sem rætt var um ólíkar aðferðir víðs vegar um heiminn til að hvetja karlmenn og stráka til að beita sér fyrir kynjajafnrétti. Inga Dóra fjallaði um hvernig landsnefnd UN Women á Íslandi, með stuðningi stjórnvalda hafa unnið með HeForShe hreyfingunni að vitundarvakningu um mikilvægi þess að karlmenn og strákar taki virkan þátt í baráttunni fyrir auknu kynjajafnrétti með ólíkum leiðum. Hún sýndi myndbandið Kynjajafnrétti er keppnis en einnig sýndi hún myndband Pálmars Ragnarssonar, körfuboltaþjálfara í KR sem tók upp á að eigin frumkvæði að beita sér fyrir kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi. Pálmar er frábær fyrirmynd yngri kynslóðarinnar  en hann vinnur markvisst að því að skapa ungum strákum kvenfyrirmyndir í körfunni með breyttri orðræðu, hvetja strákana til að sækja kvennaleiki og þjálfa þá í að skjóta eins og stelpur. Þess má geta að myndböndin fengu mikla athygli og lófaklapp.

Einnig var sýnt myndband herferðinnar Ring the Bell eða Bell abajo sem er vitundarvakning um heimilisofbeldi í Indlandi. Inntakið er, dinglaðu dyrabjöllunni eða skiptu þér af, ef þú verður var við heimilisofbeldi en á Indlandi er heimilið hættulegasti staður kvenna. Myndbandið var fyrst frumsýnt í Indlandi og hefur í kjölfarið verið þýtt og sýnt í flestum nágrannaríkjum Indlands. Nýjustu tölur herma að myndbandið hafi náð til yfir 90 milljóna manna. Myndbandið er tiltölulega einfalt með sterkum skilaboðum sem greinilega virka vel í Indlandi, Pakistan, Víetnam og víðar. Kröftugar umræður mynduðust um hvaða leiðir séu bestar við að virkja karlmenn í jafnréttisbaráttunni og mikilvægi þess að taka mið af svæðisbundnum veruleika. Áhugavert var að sjá að sama leiðin virkar ekki í öllum löndum sem undirstrikar enn frekar að taka þarf mið af menningu og svæðisbundnum veruleika þegar unnið er að vitundarvakningu um kynjajafnrétti og í þessu tilviki virkja karlmenn í baráttunni.

Related Posts