fbpx

„Heimurinn verður sterkari ef allir fá að taka þátt í honum“

Heim / Fréttir / „Heimurinn verður sterkari ef allir fá að taka þátt í honum“

Alþjóðlega jafnréttisráðstefnan Kynslóð jafnréttis (Generation Equality Forum) hófst í París í dag. Meðal framsögufólks voru Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Hillary Clinton, Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastýra UN Women og Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Einnig stigu á svið ungir aktívistar og fólk sem starfar innan grasrótarinnar.

Macron hóf viðburðinn með því að ræða áhrif COVID-19 á kvennabaráttuna og mikilvægi þess að berjast fyrir jöfnum rétti. „Ég er femínisti því femínismi er húmanismi. Þetta er barátta fyrir mannréttindum, bæði karla og kvenna. Réttindi kvenna og stúlkna eru alþjóðlegt baráttumál, alveg eins og mannréttindi. Réttindi kvenna og stúlkna og mannréttindi eru órjúfanleg,“ sagði Macron.

Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, tók í sama streng og ítrekaði mikilvægi þess að tryggja fjöbreytileika á öllum sviðum samfélagsins og þess að berjast gegn því bakslagi sem orðið hefur í jafnréttismálum á tímum COVID-19.

Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women, sagði nauðsynlegt að tryggja þátttöku ungs fólks í allri framþróun, því án þeirra náist ekki raunverulegt jafnrétti né framþróun.

Varaforseti Bandaríkjanna, Kamala Harris, tók einnig til máls á viðburðinum og gerði lýðræði að umræðuefni sínu: „Ef við viljum styrkja lýðræðið, þurfum við að auka kynjajafnrétti. Þegar konur hafa aðgengi að fjármagni, styrkir það lýðræðið. Þegar konur lifa án ótta við ofbeldi og geta tekið fullan þátt í samfélaginu, styrkir það lýðræðið. Ég veit sjálf hvað gerist þegar hlustað er á konur – það styrkir lýðræðið. Ég veit fyrir víst að kynjajafnrétti styrkir lýðræðið.“

Harris endurómaði einnig það sem Guterres sagði um mikilvægi þess að allir hljóti sæti við samningaborðið. „Hlustið á þá sem ekki er hlustað á. Takið eftir því hverjir eru fjarverandi í rýminu og bjóðið þeim inn. Heimurinn verður sterkari ef allir fá að taka þátt í honum.“

Hillary Clinton ræddi við Julietu Martinez, 17 ára gamlan aktívista frá Sjíle og stofnanda Latinas for Climate hreyfingarinnar. Clinton sagðist vona að stjórnvöld og fyrirtæki standi við gefin orð um að hraða skrefum í átt að jafnrétti.

„Ég vil að litið verði á stúlkur sem pólitíska þátttakendur. Stúlkur geta og vilja vera hluti af breytingunni og lausninni. Í dag er ég ekki bara Julieta frá Sjíle, heldur er ég líka Melanie frá Ekvador og allar hinar stúlkurnar sem standa ekki á þessu sviði í dag en berjast fyrir lífi sínu og réttindum hvern einasta dag. Þið sjáið þær ekki, því þær hafa ekki rýmin eða tólin til að láta rödd sína heyrast og þær upplifa sig einar og yfirgefnar. Þeim finnst eins og kerfið hafi yfirgefið þær. Við verðum að vera hluti af ákvarðanatökunni,“ sagði Martínez og uppskar mikið lófaklapp.

Kynslóð jafnréttis er alþjóðlegt jafnréttisátak sem hófst árið 2020 í tilefni 25 ára afmælis framkvæmdaáætlunarinnar frá Peking. Markmið þess er að ríki, alþjóðastofnanir, frjáls félagasamtök og einkaaðilar sameinist um úrbætur á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Frönsk og mexíkósk stjórnvöld fara ásamt UN Women með yfirstjórn verkefnisins. Átakið er unnið á sex málefnasviðum og stýrt af aðgerðabandalögum. Íslensk stjórnvöld veita aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi (e. Action Coalition on Gender Based Violence) forystu.  Á ráðstefnunni í París kynna bandalögin sex aðgerðir sem miða að hraðari framþróun á sviði jafnréttismála til næstu fimm ára.

Related Posts