fbpx

80 milljónir á flótta í heiminum í dag

Heim / Fréttir / 80 milljónir á flótta í heiminum í dag

Á hverri mínútu, flýja 20 einstaklingar heimili sín vegna stríðsátaka, ofsókna eða hryðjuverkaógnar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað 20. júní fólki á flótta.

„Í ár ógnaði COVID-19 heimsfaraldurinn enn frekar lífi og heilsu fólks á flótta. Fólks sem var þegar í hópi þeirra mest berskjölduðu. Það er mikilvægt að þessi hópur gleymist ekki í aðgerðaráætlunum stjórnvalda nú þegar reisa á efnahag þjóða,“ sagði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, í tilefni dagsins.

Áætlað er að um 80 milljónir einstaklinga séu á flótta í dag. Konur eru rúmlega helmingur þeirra. Þrátt fyrir það gleymast þarfir þeirra og raddir ítrekað þegar áætlanir um neyðaraðstoð eru settar saman. Það þýðir að neyðaraðstoð nýtist í mörgum tilfellum konum og stúlkum ekki jafn vel og karlmönnum.

Þegar átök og hamfarir dynja á samfélögum, margfaldar það þann ójöfnuð sem þegar ríkir: Kynbundið ofbeldi eykst, konur verða líklegri til að búa við fátækt, hungur og mismunun og hafa síður aðgang að neyðaraðstoð. Samt sem áður fór aðeins 1% af öllu því fjármagni sem ætlað var neyðaraðstoð árið 2015 til kvenmiðaðra verkefna.

60% alls mæðradauða sem hægt hefði verið að fyrirbyggja með lágmarks heilbrigðisþjónustu, á sér stað á meðal kvenna og stúlkna á flótta.

UN Women veitir konum og stúlkum á flótta kvenmiðaða neyðaraðstoð og starfrækir jafnframt griðastaði í flóttamannabúðum víða um heim, m.a. í Jórdaníu, Tyrklandi og Bangladesh.

Á griðastöðum UN Women fá konur:

  • Menntun og starfsþjálfun
  • Atvinnutækifæri
  • Daggæslu fyrir börn
  • Fræðslu- og forvarnastarf um skaðlegar afleiðingar þvingaðra barnahjónabanda
  • Fræðslu um sóttvarnir á tímum COVID-19

Starf UN Women á griðastöðunum hefur jákvæð áhrif á líf kvenna á mörgum sviðum. Til dæmis fá nú 36% kvenna fasta atvinnu innan við þremur mánuðum eftir að þær ljúka starfsþjálfun á griðastað, og geta þannig séð fyrir fjölskyldu sinni.

Fólk á flótta er ekki einsleitur hópur fólks, heldur kemur það frá ólíkum löndum, er með ólíkan bakgrunn, flýr heimili sín af ólíkum ástæðum og er flokkað á ólíkan hátt eftir aðstæðum sínum.

Hér er farið yfir þessi  hugtök.

Flóttafólk
Samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951, er flóttafólk hver sá einstaklingur sem hefur flúið heimili sitt eða heimaland af ótta við ofsóknir vegna kynþáttar, trúar, uppruna, samfélagsstöðu eða stjórnmálaskoðana. Mikill fjöldi fólks er einnig á flótta vegna umhverfisþátta. Um 80% þeirra hefur leitað skjóls í ríkjum þar sem þegar ríkir ótraust ástand.

Hælisleitandi
Hælisleitandi, eða umsækjandi um alþjóðlega vernd, hefur flúið heimili sitt af sömu ástæðum og flóttafólk. Munurinn er hinsvegar sá að umsækjandi um alþjóðlega vernd þarf að biðja um viðurkenningu á stöðu sinni sem einstaklingur á flótta hjá yfirvöldum þess ríkis sem hann hefur sótt um hæli hjá.

Flóttafólk í eigin landi (Internally displaced person)
Fólk á flótta hefur ekki alltaf tök á því að fara á milli landamæra. Í dag eru um 46 milljónir einstaklinga á flótta innan heimalands síns, m.a. vegna stríðsátaka, náttúruhamfara og hryðjuverkaógnar. Þar af eru um 6,7 milljónir Sýrlendinga á vergangi innan landamæra Sýrlands vegna stríðsástands.

Fólk án ríkisfangs
Ríkisfangslausir einstaklingar tilheyra engu þjóðríki og njóta því ekki almennra mannréttinda á borð við réttinn til menntunar, heilsugæslu og vinnu. Þeir búa heldur ekki við ferðafrelsi.

Einstaklingar sem snúa heim eftir flótta
Fólk sem snýr aftur heim til upprunalandsins eftir að hafa verið á flótta, ýmist til lengri eða skemmri tíma, þarf heildræna aðstoð við að endurreisa líf sitt. Heimili þeirra eru oftast ónýt, innviðir í lágmarki og lítið um atvinnu að hafa. Þessu fólki þarf að tryggja stuðning og aðstoð við heimkomuna.

Related Posts
Raheema Frankie