Hátíðarkveðja UN Women 2017

Home / Fréttir / Hátíðarkveðja UN Women 2017

Við hjá UN Women á Íslandi óskum þér gleðilegra jóla og þökkum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Árið 2017 var viðburðaríkt hjá okkur.

Í janúar efndu Joe & the Juice og UN Women á Íslandi til sameiginlegs átaks. Viðskiptavinum Joe & the Juice bauðst að bæta 100 krónum við hvern stóran djús á matseðli og bætti Joe & the Juice sömu upphæð við hvern drykk. Rúmlega fimm þúsund djúsar seldust til styrktar UN Women og rann ágóðinn til verkefna UN Women sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum í fátækustu löndum heims.

Fokk ofbeldi herferðin í febrúar, gekk vel að vanda og seldist Fokk ofbeldi húfan upp á mettíma. Í miðri Fokk ofbeldi herferð stóð UN Women á Íslandi fyrir dansbyltingunni Milljarði rís í fimmta sinn víðsvegar um landið. Fólk á öllum aldri fylktust á dansgólf í Hörpu, Hofi Akureyri, Reykjanesbæ, Höfn, Neskaupstað, Seyðisfirði, Rifi, Hvammstanga, Borgarnesi, Ísafirði og Egilsstöðum og dansaði gegn kynbundnu ofbeldi. Milljarður rís í ár var tileinkaður minningu Birnu Brjánsdóttur og var samtakamátturinn allsráðandi.

Landsnefnd UN Women á Íslandi og íslensk stjórnvöld kynntu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna, HeForShe verkfærakistu sem ætluð er hverjum þeim sem vill hvetja karlmenn til að láta til sín taka í baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Verkfærakistan var þróuð af landsnefnd UN Women á Ísland í samstarfi við íslensk stjórnvöld og afhent HeForShe, alþjóðlegri hreyfingu UN Women. Sérstakur viðburður var haldinn til að kynna verkfærakistuna á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York og var viðburðurinn vel sóttur.

Páskaegg UN Women var selt í vefverslun UN Women í apríl til styrktar konum á flótta frá Mósul í Írak. Í tilefni af mæðradeginum 10. maí efndi UN Women á Íslandi til sms-söfnunar þar sem almenningur var hvattur til senda sms-ið í nafni mömmu og taka þannig þátt í að uppræta barnahjónabönd í Malaví.

Í júní var Empwr peysan í sölu, en peysan er afurð samstarfs UN Women á Íslandi og iglo+indi. Peysan var hönnuð bæði fyrir börn og fullorðna og seldist upp á augabragði. Allur ágóði sölunnar rann til kvenna á flótta í Kamerún, Austur-Kongó og Írak.

Fjöldi hlaupara söfnuðu áheitum fyrir UN Women í Reykjavíkurmaraþoninu og færum við öllum þeim kærar þakkir fyrir.

Fyrst allra landsnefnda fór UN Women á Íslandi í svæðisheimsókn ásamt Evu Maríu Jónsdóttur og forsetafrú Íslands, Elizu Reid til Zaatari flóttamannabúðanna í Jórdaníu. Þar kynnti teymið sér starf griðastaða UN Women fyrir konur og börn þeirra og tóku viðtöl og myndir. Í nóvember efndi svo UN Women á Íslandi til viðamestu herferðar samtakanna hingað til, sms-neyðarsöfnunarinnar Konurnar í Zaatari fyrir sýrlenskar konur á flótta í Jórdaníu sem gekk gríðarlega vel.

Um miðjan nóvember fór í sölu jólagjöf UN Women, Mömmupakki fyrir nýbakaða móður í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu og inniheldur burðarrúm, hlý ungbarnaföt og ullarsjal fyrir mömmuna. Jólagjöfin seldist gríðarlega vel og sýndu landsmenn enn og aftur svo sannarlega stuðning við konur á flótta sem búa við grimman veruleika.

Á alþjóðlegum degi Sameinuðu Þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, þann 25. nóvember, var árleg Ljósaganga UN Women á Íslandi gengin frá Arnarhóli að Bríetartorgi. Gangan markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi og var yfirskrift göngunnar í ár Höfum hátt og leiddu þær Nína Rún Bergsdóttir, Anna Katrín Snorradóttir, Glódís Tara og Halla Ólöf Jónsdóttir gönguna sem var sú stærsta hingað til.

 

Þess ber að geta að UN Women á Íslandi sendir hæsta fjárframlag til verkefna UN Women allra landsnefnda, óháð höfðatölu, þökk sé ykkur. Við þökkum innilega fyrir samfylgdina og ómetanlegan stuðning á árinu.

Starfsfólk og stjórn UN Women á Íslandi

Related Posts