Árið sem konur tóku völdin

Home / Fréttir / Árið sem konur tóku völdin

Árið 2017 markar tímamót í baráttunni fyrir kynjajafnrétti og munu þær framfarir sem áttu sér stað vonandi bæta líf kvenna og stúlkna í heiminum til framtíðar. Fjöldi minnisverðra atburða og lagabreytinga konum og stúlkum í hag víða um heim áttu sér stað á árinu sem seint munu gleymast.

Þar ber að nefna hina mögnuðu #MeToo byltingu sem hófst í október þegar konur risu upp og hófu að segja frá kynferðislegri áreitni, mismunun og brotum sem þær hafa þurft að þola fyrir það eitt að vera konur. Leikkonur í Hollywood hófu byltinguna með kassamerkinu #METOO í kjölfar afhjúpunar á kynferðisofbeldi sem Hollywood kvikmyndaframleiðandinn, Harvey Weinstein, beitti konur og stúlkur ítrekað. Weinstein-afhjúpunin leysti úr læðingi frásagnir kvenna sem þurft hafa að þola síendurtekið kynbundið ofbeldi og áreiti. Tístað var 1.7 milljónum tístum á Twitter undir kassamerkinu #METOO í 85 löndum á fyrstu vikum byltingarinnar sem í lok árs var þó enn rétt að hefjast.

Íslenski jafnlaunastaðallinn kynntur í Allsherjarþingi SÞ í New York

Konur þéna enn 23% minna en karlmenn á heimsvísu, já og árið er 2017. Þorsteinn Víglundsson, þáverandi jafnréttismálaráðherra kynnti íslenski jafnlaunastaðalinn (Global Equal Pay Platform of Champions) að viðstöddu fjölmenni á Kvennanefndarfundi SÞ í Allsherjarþinginu í New York í marsmánuði. Í kjölfarið hleypti UN Women af stokkunum vitundarvakningarátaki sem bar heitið Stop the Robbery. Íslenski jafnlaunastaðallinn sem kynntur var í Allsherjarþinginu er stjórnunarkerfi sem setur fram vinnuferli sem fyrirtæki og stofnanir geta fylgt til að tryggja launajafnrétti á sínum vinnustað. Leikkonan Patricia Arquette, fótboltastjarnan og fyrrum heimsmeistari í fótbolta, Abby Wambach og Anannya Bhattacharjee, frá verkalýðsfélagi vefnaðarverkafólks á Indlandi ræddu í kjölfarið um mikilvægi þess að útrýma kynbundnum launamun. Patricia Arquette þakkaði Íslandi sérstaklega fyrir sinn hlut og fyrir að grípa óhikað til róttækra aðgerða í jafnréttismálum. Einnig átti Bergur Ebbi Benediktsson stórleik og flutti beitt erindi þar sem hann benti á hve ótrúlegt væri að enn, árið 2017, þætti það róttæk hugmynd að ríkisstjórn væri búin að einsetja sér að eyða kynbundnum launamun og hvatti alla til að spýta í lófana.

Ný lög um heimilisofbeldi í Kyrgizstan

Um 35% kvenna í heiminum hafa þurft að þola heimilisofbeldi eða ofbeldi af hendi maka. Í Kyrgizstan hafa 23% kvenna á aldrinum 15-49 ára tilkynnt líkamlegt ofbeldi innan heimilis eða af hendi maka. Tímamóta lagabreyting var gerð í Kyrgizstan hvað varðar heimilisofbeldi sem miðar að því að auka öryggi og vernd við þolendur, einfalda og auðvelda þolendum ferlið við skýrslutökur og setja í framkvæmd betrunarferli fyrir gerendur í heimilisofbeldismálum. Nýju lögin gera einnig öllum þeim sem vitni verða af eða vita til þess að um heimilisofbeldi sé að ræða geti tilkynnt lögreglu um heimilisofbeldi.

Barn, ekki brúður

Í febrúar var veigamikið jafnréttisskref stigið til fulls í Malaví þegar þegar lögræðisaldur var hækkaður úr 15 í 18 ár. En árið 2015 var gerð lagabreyting sem kveður á um hækkun giftingaraldurs stelpna og stráka úr 15 í 18 ár samþykkt og fyrir vikið barnabrúðkaup bönnuð. Síðastliðin tvö ár hefur því verið auðvelt að komast framhjá lögunum þar sem lögræðisaldurinn var enn 15 ár. Margt hefur áunnist í baráttunni gegn þvinguðum barnahjónaböndum víða um heim á árinu sem er að líða ekki síst í Suður-Ameríku. Í Trinidad og Tobago og Honduras hafa verið lagðar fram tillögur að lagabreytingum um hækkun giftingaraldurs, í ágústmánuði var stigið stórt skref í Guatemala þegar lagaundanþágur voru afnumdar sem fólu í sér leyfi dómara til að gera undanþágur fyrir barnahjónaböndum ef það væri í „hag barnsins“ auk þess sem loku var skotið yfir glufu í landslögum El Salvador sem kváðu á um að barnungar stúlkur mættu giftast undir ákveðnum kringumstæðum, til dæmis ef þær ættu von á barni.

 „Nauðgunarlög“ afnumin í Líbanon, Túnis og Jórdaníu

Söguleg stund átti sér stað í Líbanon, Túnis og Jórdaníu í ágúst þegar svokölluð „nauðgunarlög“ vorum afnumin. Lögin gerðu nauðgurum kleift að komast hjá því að verða sóttir til saka með því að giftast þolendum sínum. Lagabreytingin gekk loks í gegn eftir áratuga baráttu fjölda kvennasamtaka og UN Women. Þetta risa jafnréttisskref mun vonandi auka enn frekar þrýsting á eftirfarandi nágrannaríki sem enn varðveita „nauðgunarlögin“ í sínum lagabókstaf; Írak, Kúveit, Líbíu, Barein og Sýrlandi.

Konur loks undir stýri

Konur í Saudi Arabíu geta loks sest undir stýri og keyrt. Þar með er loka vígið fallið, allavega í bili en ríkið var hið eina í heiminum sem bannaði með lögum konum að keyra. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres segir þetta „mikilvægt skref í rétta átt“. Phumzile Mlambo Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women tók í sama streng og vonar að þetta skref marki upphaf að raunverulega kynjajafnrétti konum og stúlkum í hag í Saudi Arabíu.

Takk fyrir ómetanlegan stuðning á árinu sem er að líða.

Gleðilegt nýtt ár!

Starfskonur og stjórn UN Women á Íslandi

Related Posts