Ég ráðlegg vinum mínum að sýna hugrekki

Home / Dæmi um styrktarverkefni / Ég ráðlegg vinum mínum að sýna hugrekki

feturaFramtíðardraumar Feturu, 14 ára stúlku í Kombolcha héraði í Eþíópíu, urðu að engu á einu augabragði þegar faðir hennar tilkynnti að gefa ætti hana í hjónaband eldri manni.

Áfallið varð ungu stúlkunni mikið því að hún hafði stefnt að því að ljúka námi og fá sér vinnu áður en hún gengi í hjónaband. Fetura lagði hart að föður sínum að hætta við áform sín um brúðkaupið og leyfa henni að ljúka skólagöngu sinni en eina svarið sem hún fékk var að það hefði ekkert upp á sig að mennta stúlkur. Hún ákvað því að taka ráðin í eigin hendur enda mjög meðvituð um þær andlegu og líkamlegu hættur sem ungar brúðir standa frammi fyrir. Í skólanum hafði hún fengið fræðslu um réttindi sín og lög sem vernda stúlkur gegn skaðlegum siðum á borð við barnabrúðkaup en í þorpi hennar þykir það mikil skömm að vera ógift við 16 ára aldur.

Fetura hafði samband við kennara og skólastjórann í skólanum sem hún sótti en það skilaði litlu því faðirinn var harður í horn að taka og sagðist hafa rétt á því að gera það sem honum sýndist við dóttur sína. En kennararnir héldu baráttunni áfram og tókst á endanum að koma málinu fyrir dómstóla þar sem stúlkan bar vitni gegn föður sínum. Hann gaf sig að lokum og samþykkti að leyfa henni að ljúka námi sínu.

Í Kombolcha er starfrækt verkefni á vegum sem er styrkþegi Styrktarsjóðs Sameinuðu þjóðanna til afnáms ofbeldis gegn konum og miðar að því að auka þekkingu kvenna á réttindum sínum og berjast þannig gegn barnabrúðkaupum. Síðan verkefninu var ýtt úr vör árið 2009 hefur fjöldi kvenna fengið þjálfun á vegum samtakanna og hefur þeim víða tekist að uppræta siðinn í samvinnu við skóla, kvennahreyfingar, lögreglu og leiðtoga á hverjum stað fyrir sig.

„Ég ráðlegg vinum mínum að hætta ekki í námi og sýna hugrekki þegar kemur að því að verja réttindi sín.“ Segir Fetura sem nú er orðin 16 ára og er enn í námi. „Einnig hef ég tekið þátt í að vekja unga stráka til vitundar um baráttuna gegn barnabrúðkaupum því ég vil ekki horfa upp á systur mínar og vinkonur í sömu stöðu og ég var í.“

Líkt og Fetura berjast stúlkur í öllum héruðum Eþíópíu nú fyrir réttindum sínum. Þær vita að það þarfnast hugrekkis en þær hafa stuðning samfélaga sinna því sú stund er runnin upp að binda þarf enda á barnabrúðkaup.

Þú getur lagt stúlkum sem og Feturu lið með því að gerast mánaðarlegum styrktaraðili UN Women. Skráðu þig strax í dag.

Related Posts