Barnabrúðkaup og þvinguð hjónabönd

Home / Dæmi um styrktarverkefni / Barnabrúðkaup og þvinguð hjónabönd
kovermynd fermingBarnabrúðkaup og þvinguð hjónabönd eru alvarleg birtingamynd ofbeldis gegn konum og stúlkum en yfir 67 milljónir stúlkna hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur þrátt fyrir að hjúskaparlög kveði á um lágmarksaldur.
Rannsóknir sýna að meðalaldur barnabrúða er víða aðeins 14 ára.
Stundum eru þær svo ungar að þær ríghalda í leikföngin sín á meðan athöfninni stendur.
Ef  ekkert verður gert munu 39 þúsund stúlkur á dag, 27 stúlkur á hverri mínútu ganga í hjónaband á næstu 10 árum.
Að gefa ungar stúlkur í hjónabönd hefur víðtæk áhrif á samfélagið í heilsufarslegu-, efnahagslegu- sem og félagslegu tilliti. Fæstar giftar stúlkur fá tækifæri til að ljúka námi sem leiðir til skertra atvinnutækifæra og möguleika á efnahagslegu sjálfstæði. Gríðarlegur valdamunur milli stúlkunnar og eiginmannsins veldur því að þær verða oft þrælar tengdafjölskyldu sinnar eða að minnsta kosti eiginmanns síns. Þessi óhugnanlegi siður viðheldur fátækt og ofbeldi.
„Ég var svo ung þegar ég var gift að ég man varla eftir því. Eiginmaðurinn minn ól mig upp“ – 18 ára eþíópísk stelpa
Segja má að stríð sé háð gegn stúlkum. Helsta dánarorsök allra stúlkna í heiminum á aldrinum 15 til 18 ára eru erfiðleikar á meðgöngu eða við fæðingu. Víða er krafa á ungum eiginkonum um að eignast börn áður en að líkamar þeirra eru fullþroskaðir. Einnig er aukin hætta á HIV smiti og öðrum kynsjúkdómum þar sem ung brúður er ekki í aðstöðu til að mótmæla eiginmanni sínum.
UN Women vinnur að afnámi hverskyns ofbeldis gegn konum og stúlkum og styrkir meðal annars Styrktarsjóð Sameinuðu þjóðanna til afnáms ofbeldis gegn konum. Sjóðurinn leggur ríka áherslu á að stuðla að hugarfarsbreytingum svo hjónabönd stúlkna verði afnumin sem og að veita stúlkum sem nú þegar hafa verið giftar úrræði.
Related Posts