fbpx

4 milljónir söfnuðust til stuðnings konum í Úkraínu

Heim / Fréttir / 4 milljónir söfnuðust til stuðnings konum í Úkraínu
Iryna Kamienieva, Þórdísi Claessen, Stella Samúelsdóttir, Bjarney

Bjarney Harðardóttir afhendir Stellu Samuelsdóttur 4,4 milljónir sem söfnuðust við sölu bols til styrktar konum og stúlkum í Úkraínu. Iryna Kamienieva og Þórdís Claessen hönnuðu bolinn.

Við upphaf innrásar Rússa í Úkraínu fyrir ári síðan tóku UN Women á Íslandi og 66°Norður höndum saman og hófu átak til að styðja við kvenmiðaða neyðaraðstoð í Úkraínu.

UN Women er starfandi í Úkraínu og vinnur að því að styðja við þarfir kvenna og stúlkna og veita þolendum viðeigandi aðstoð á svæðinu og fyrir þær sem hafa lagt á flótta.

8,1 milljón hafa flúið heimili sín frá því að innrás Rússa inn í Úkraínu hófst þann 24. febrúar 2022, 90% þeirra eru konur og börn, en karlmönnum á aldrinum 18 til 60 ára er meinað að yfirgefa landið.

Ómetanlegur stuðningur

Söluandvirði bolsins, 4,4 milljónir, rennur óskipt til verkefna UN Women í Úkraínu. Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi tók á móti fjárhæðinni fyrir páska á skrifstofu samtakanna og sagði stuðninginn ómetanlegan.

„Um leið og stríðið hófst í Úkraínu voru 66°Norður fljót að bregðast við og höfðu strax samband við okkur til að kanna hvernig þau gætu stutt við starf UN Women þar í landi og konur á flótta. Þannig varð þetta frábæra samstarfsverkefni okkar til, þar sem hannaður var þessi fallegi táknræni bolur til styrktar konum á flótta. Það er okkur ómetanlegt að fá slíkan stuðning og taka á móti þessu rausnarlega framlagi sem svo sannarlega mun koma í góðar þarfir fyrir allt það starf sem UN Women sinnir í Úkraínu,“ sagði Stella við tilefnið.

Deilir úkraínskri menningu með Íslendingum

UN Women á Íslandi og 66°Norður fengu unga listakonu, Iryna Kamienieva, sem var nýkomin til Íslands á flótta frá Úkraínu og Þórdísi Claessen til að hanna bolinn til stuðnings átakinu. Hönnun bolsins samanstóð af þjóðlegu Vyshyvanka-mynstri og ljóði eftir úkraínsku skáldkonuna Lesia Ukrainka.

Iryna sagði mikinn heiður að taka þátt í verkefninu og að fá tækifæri til að deila hluta af úkraínskri menningu með Íslendingum. „Það var ánægjulegt að vinna með Þórdísi og útkoman frábær, styrktarbolirnir eru bæði í senn hefð og tíska. Þetta er dásamlegt verkefni sem þjónar tvöföldum tilgangi, að skiptast á menningu og hjálpa konum í Úkraínu. Ég er mjög þakklát UN Women á Íslandi og 66°Norður fyrir að láta þetta verða að veruleika.“

„Það var mikill heiður að taka þátt í verkefninu og kynnast ríkri hefð Úkraínufólks á útsaumi þeirra. Ég lærði heilmikið í hönnunarferlinu með dyggri leiðsögn Irynu hvað varðar mynstur, merkingu og liti og fannst dýrmætt að skyggnast inn í hennar menningarheim. Í ferlinu fékk ég mikinn innblástur og vona innilega að bolirnir hafi skilað sínu hlutverki,“ sagði Þórdís Claessen hönnuður.

 

Related Posts