Yfir 5 þúsund djúsar seldust til styrktar UN Women

Rúmlega fimm þúsund djúsar seldust til styrktar UN Women á Joe & the Juice í janúar. Ágóðinn rennur beint til verkefna UN Women sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum í fátækustu löndum heims.

Joe & the Juice og UN Women efndu til sameiginlegs átaks 18. -31. janúar. Viðskiptavinum Joe & the Juice bauðst að bæta 100 krónum við hvern stóran djús á matseðli og bætti Joe & the Juice sömu upphæð við hvern drykk.

Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi segir móttökur viðskiptavina Joe & the Juice vera gríðarlega ánægjulegar. „Þetta magnaða framlag viðskiptavina Joe & the Juice sýnir sterka afstöðu viðskiptavina staðarins gegn kynbundnu ofbeldi og þá ríku meðvitund almennings um vandann sem því miður er gríðarstór. Söfnunin sýnir líka vel að margt smátt gerir eitt stórt og framlag viðskiptavina Joe & the Juice og fyrirtækisins er ómetanlegt.“

Daníel K. Stefánsson framkvæmdastjóri Joe & the Juice tekur í sama streng og þakkar viðskiptavinum og starfsfólki fyrir stuðninginn. „Ef starfsfólk Joe & the Juice hefði ekki tekið svona vel í átakið hefði það aldrei skilað þessum árangri. UN Women sinnir mikilvægu starfi og því kom aldrei neitt annað til greina en að taka þátt í þessu átaki þegar hugmyndin kom upp,“ segir Daníel.

Ágóðinn rennur til styrktar verkefna UN Women, t.d. athvarfs í borginni Siem Reap í Kambódíu fyrir fórnarlömb sýruárása  þar sem konum er tryggð læknisaðstoð, sálfræðiaðstoð og jafningjastuðningur og athvarfs í Austur-Kongó fyrir konur sem þurft hafa að þola gróft kynbundið ofbeldi þar sem konur fá bráðalæknaþjónustu, áfallahjálp, sálfræðiaðstoð og lagalega aðstoð á leið aftur út í lífið.

UN Women styrkir verkefni um allan heim sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stelpum, tryggja þolendum viðeigandi aðstoð og stuðla að sterkari löggjöf og framfylgd laga um ofbeldi gegn konum.

UN Women á Íslandi færir Joe & the Juice og viðskiptavinum staðarins bestu þakkir fyrir stuðninginn.