Kvenbændur í Austur-Kongó takast á við loftslagsbreytingar

Home / Fréttir / Kvenbændur í Austur-Kongó takast á við loftslagsbreytingar

Photo: UN Women DRC

UN Women setur á laggirnar verkefni í Austur-Kongó (DRC) fyrsta sinnar tegundar. Markmiðið er að takast á við breyttan landbúnað vegna loftslagsbreytinga og um leið auka jafnrétti kynjanna með því að styðja við og valdefla kvenbændur í Austur-Kongó, fyrst og fremst með fræðslu- og leiðtogahæfnisnámskeiðum. Einnig er markmiðið að þrýsta á lagaumbætur sem tryggja konum aðgang að ræktunarlandi, nýjustu tækni og upplýsingum. Þannig geta þær orðið sér út um nýjustu ræktunaraðferðir og tækni, veðurspá og aðgang að lánsfé. Verkefnið verður starfrækt í sex héruðum landsins og hefur bein áhrif á líf 600 þúsund kvenna á næstu fimm árum. Beint verður sjónum að kvenbændum sem koma að ræktun fimm algengustu ræktunartegunda í Kongó; maís, cassava, baunir, hnetur og hrísgrjón.

Awa Ndiaye Seck starfar fyrir UN Women í Austur-Kongó, hún segir konur verða verr fyrir barði loftslagsbreytinga en karlmenn, bæta þurfi ræktunaraðferðir, starfsumhverfi þeirra og síðast en ekki síst veita þeim sömu tækifæri til atvinnu og sjálfbærni. Efnahagur Austur-Kongó byggir fyrst og fremst á landbúnaði og skógrækt. Loftslagsbreytingar hafa leitt til hærra hitastigs í heiminum, aukinna flóða og þurrka sem hafa gríðarleg áhrif á uppskeru og fæðuöflun þar í landi sem og víðar.

Lesa meira

„Þær sem ætla að leigja ræktarland er vísað frá og beðnar að koma með karlmann sér við hlið og semja“

Konur eru 52% kongósku þjóðarinnar og eru í miklum meirihluta bænda landsins. Vegna loftslagsbreytinga glata þær framleiðslu sinni, uppskeru og lífsviðurværi sínu nú æ oftar í ofanálag við átökin sem geysa í Austur-Kongó. Konur gegna einnig lykilhlutverki í samfélaginu við umönnunarstörf. Þeirra hlutverk felst m.a. í að koma mat á borð fjölskyldunnar og hugsa um börn og eldra fólk. Loftslagsbreytingar trufla lífsmynstur þeirra og daglegar venjur, þær hafa meira fyrir því að sækja og útvega vatn og eldivið til matreiðslu. Síðast en ekki síst, því lengri leið sem þær þurfa að ganga eftir vistunum, því berskjaldaðri verða þær gagnvart kynbundnu ofbeldi.

Þrátt fyrir að konur séu í miklum meirihluta bænda er þeim mismunað grimmt vegna kyns síns. Innan við 10% kvenna er landeigendur í Austur-Kongó og þær sem ætla að leigja ræktarland er vísað frá og beðnar að koma með karlmann sér við hlið og semja. Þær fara þá gjarnan þá leið að taka lán hjá fjölskyldu og vinum á okurvöxtum. Að sama skapi hafa aðeins 2% kvenbænda aðgang að lánum og takmarkað aðgengi að  fjármögnunarleiðum, mörkuðum, dreifingaraðilum og tækni.

Samkvæmt úttekt UN Women á landbúnaði og stöðu kvenna í Maniema-héraðinu fást bæði konur og karlmenn við ræktun hrísgrjóna og rótargrænmetis, aftur á móti taka karlmenn yfir hrísgrjónaræktunina þar sem hrísgrjón seljast margfalt betur en rótargrænmetið. Þær konur sem vinna að hrísgrjónaræktun aðstoða við að pakka vörunni og selja á verðum sem karlmenn ákvarða og semja um. Karlmennirnir annast aftur á móti langoftast sölu til dreifingaraðila og rækta tengslanetið. Mun fleiri svipuð dæmi er að finna í öðrum héruðum Kongó.

„Konur eru vannýtt auðlind og boðberar breytinga“

Seck segir konur geta látið til sín taka á ólíka vegu við að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. „Konur eru vannýtt auðlind og boðberar breytinga en tryggja þarf þeim réttu tólin. Þær geta lagt margt og mikið af mörkum ef þeim er veitt aðgengi til jafns við karlmenn að upplýsingum, þjálfun, vitundarvakningu og tækni. Einnig er áríðandi að búa konur undir og veita þeim aðgang að skipulagningu og aðgerðum uppbyggingarferla í kjölfar náttúruhamfara.“

„Konur sem ætla að leigja ræktunarland er vísað frá og beðnar að koma með karlmann sér við hlið og semja“

Seck segir þær áskoranir sem kvenbændur í Austur-Kongó standi í frammi fyrir vera fjölþættar. „Konur skortir ekki eingöngu landssvæði til umráða, þekkingu, dreifingaraðila, tól til markaðssetningar og aðgengi að lánum, heldur eru konur jaðarsettur hópur innan landbúnaðargeirans. Jaðarsett staða kvenna viðheldur fátækt þeirra og norm feðraveldisins eru rætur mismununarinnar. Þessu þarf að breyta og leggur UN Women mesta áherslu á auka leiðtogafærni kvenna og sjálfseflingu til að efla sjálfbærni þeirra. Einnig samhæfir UN Women nú aðgerðir innan samfélaga og milli ríkja við að tryggja aðgengi kvenna að réttum tækjum og tólum til að sporna við loftslagsbreytingum auk þess að þrýsta á yfirvöld að innleiða lagabreytingar sem ýtir undir sjálfbærni kvenna og gera þeim kleift að takast á við breyttan landbúnað vegna áhrifa loftslagsbreytinga.“

Lesa minna

Related Posts