fbpx

Verið sterkar og sýnið hugrekki

Heim / Fréttir / Verið sterkar og sýnið hugrekki

Ellen Johnson Sirleaf var fyrst kvenna í Afríku sem kjörin hefur verið forseti og var sú eina fram til ársins 2015. Næstkomandi október gengur líberíska þjóðin til kjörklefanna og kýs arftaka hennar og nýja ríkisstjórn. UN Women vinnur að aukinni kosninga- og stjórnmálaþátttöku kvenna í nánu samstarfi við m.a. kvennasamtök og  Jafnréttismálaráðuneyti Líberíu.

Nú þegar hafa tvær milljónir manna staðfest kosningaþátttöku sína og þar af eru helmingur konur. Þrátt fyrir að kona hafi gegnt embætti forseta Líberíu undanfarin ár, og að konur séu meira en helmingur líberísku þjóðarinnar, eru enn alltof fáar konur sem koma ákvarðanatökum og stefnumótun líberíska ríkisins. Konur eru aðeins 12% þingmanna í Líberíu sem dæmi.

UN Women fer ólíkar leiðir við efla aðkomu og þátttöku kvenna í stjórnmálum í Líberíu. Til dæmis hefur UN Women beitt sér fyrir nýjum kosningalögum sem kveða á um að konur séu að minnsta kosti 30% frambjóðenda í hverjum flokki. Að sama skapi vinnur stofnunin að því að auka kosningaþátttöku kvenna og hvetja konur til að bjóða sig fram í kosningunum.

Nýlega stóð UN Women ásamt Jafnréttismálaráðuneytinu fyrir þriggja daga stjórnmála- og stefnumótunarnámskeið fyrir konur sem hafa hug á að bjóða sig fram til kosninga. Þar hlutu þær innblástur, hvatningu og þjálfun. Á meðal fyrirlesara á námskeiðinu var fráfarandi forseti Líberíu, Sirleaf sem hvatti konur eindregið til áhrifa á stjórnmálasviðinu: „Verið sterkar, sýnið hugrekki, setjið ykkur markmið og ekki láta afvegaleiðast. Ekki láta erfiðleikana sem þið standið frammi fyrir aftra ykkur. Munið að þeir hjallar sem þið komist eru áfangar, ekki hræðast þá.“

Related Posts