fbpx

Á þessu landi ræð ég ríkjum

Heim / Fréttir / Á þessu landi ræð ég ríkjum

 „Ræktun og landbúnaður er það eina sem ég kann og mín eina tekjulind. Ég byrjaði að vinna á ökrunum með pabba mínum þegar ég var tíu ára og svo með eiginmanni mínum sem ég var gift 13 ára gömul,“ segir Khateeja Mallah 31 árs gömul og átta barna einstæð móðir í Pakistan.

„Ég missti eiginmann minn fyrir þremur árum og sá skyndilega ein fyrir átta börnum, sjö dætrum og einum syni. Þá átti ég hvorki né hafði tilkall til landssvæðis til ræktunar. Staða mín var mjög þröng. Ég sem kona í landbúnaði stend í frammi fyrir miklum áskorunum. Ég fæ mun minna greitt fyrir afurðirnar sem ég sel og þarf að þola hörku og dónaskap frá landeigendum. Ég var oft við það að gefast upp. En börnin mín héldu mér gangandi, þau gáfu mér kraft til að halda áfram. Ég varð að halda áfram þeirra vegna og tryggja bjarta framtíð þeirra, hvort sem mér líkaði betur eða verr,“ segir Mallah er hún lýsir stöðunni sem hún var í fyrir örfáum árum.

Í dag er hins vegar staðan önnur. Mallah er ein af yfir tólf hundruð landlausum kvenbændum sem hefur hlotið leigujörð með tilstilli samstarfsverkefnis UN Women, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar og Efnahags- og framfarastofnunar SÞ. Með verkefninu hljóta kvenbændur fræðslu um réttindi sín og er gert kleift að leigja jarðskika á niðurgreiddum kjörum og greiða hluta prósentu af ágóða uppskerunnar hverju sinni til leigusala. Leigutíminn er eftir samkomulagi og húsnæði fylgir samningnum.

„Að hafa lagalegan rétt til ræktunarlands, samastað fyrir fjölskylduna og fá hluta af uppskerugróðanum í eigin vasa var óhugsandi áður. Ég er svo þakklát fyrir fræðsluna sem ég hlaut hjá UN Women. Þar lærði ég um réttindi mín sem bóndi og leigutaki, í fræðslunni áttaði ég mig á því að ég hef dýrmæta þekkingu og reynslu af landbúnaði og síðast en ekki síst, áttaði ég mig á því að ég hafi hreinlega réttindi. Nú í fyrsta sinn í lífinu get ég sagt að ég eigi land og á þessu landi ræð ég ríkjum. Ég bíð spennt eftir því að þessum erfiða landbúnaðarferli mínum ljúki, þá ætla ég að slaka á, líta stolt yfir farinn veg og njóta þess að sjá börnin mín njóta ávaxta erfiðisins,“ segir Mallah.

Með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili UN Women á Íslandi – gerir þú konum eins og Mallah kleift að stunda landbúnað af krafti og sjá fyrir sér og börnum sínum.

 

Related Posts