fbpx

Verður að koma í veg fyrir hungursneyð á Gaza

Heim / Fréttir / Verður að koma í veg fyrir hungursneyð á Gaza

UN Women og Rauði hálfmáninn komu neyðargögnum til Gaza.

„Konur á Gaza eru ofurhetjur. Ég er frá Gaza og þekki því hversu sterkar þær eru,“ segir Rana Khalil, verkefnastýra hjá félagasamtökunum Palestinian Working Women Society for Development (PWWSD), sem eru einn samstarfsaðila UN Women á Vesturbakkanum í Palestínu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við yfirvofandi hungursneyð á Gaza verði ekki komið á tafarlausu vopnahléi og að neyðargögn fái að berast óhindrað til svæðisins. Meira en 1 milljón einstaklinga á Gaza búa nú við gríðarlegt mataróöryggi auk takmarkana á mannúðaraðstoð og stöðugar árásir Ísraelshers.

Alþjóðlegur dagur vatns er í dag, 22. mars, en um 2 milljarðar jarðarbúa hafa ekki aðgang að hreinu neysluvatni. Khalil segir fjölskyldu sína á Gaza búa við mikinn vatnsskort. Stundum sé vatni aðeins hleypt á í tvær klukkustundir á einni viku.

„Það er engan mat að fá, ekkert vatn, engin tjöld, það er hvergi hægt að fara á salernið. Þegar vatn kemst á, reyna þau að fylla öll ílát af vatni. Þau blanda vatni við hrísgrjón og búa til þunna súpu sem þau lifa svo á næstu þrjá daga. Mér líður hræðilega yfir því að ég hafi mat til að borða og þau ekki.“

Raka af sér hárið

Vatnsframleiðsla á Gaza er innan við 6% af því sem hún var fyrir átökin. Vegna vatnsskortsins hafa konur á svæðinu gripið til ýmissa úrræða til að reyna að viðhalda persónulegu hreinlæti.

„Það fer enginn í sturtu. Konur geta ekki þvegið hár sitt. Það er mikið um lús og konur eru því farnar að raka af sér hárið.“

Khalil segir einnig frá frænku sinni sem neyddist til þess að fæða barn á vergangi, án aðgengi að hreinu vatni. „Ég skil ekki hvernig hún fór að þessu. Þessar aðstæður eru  ómannúðlegar.“

UN Women, stofnun Sameinuðu þjóðanna sem berst fyrir jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna, segir 4 af hverjum 5 konum (84%) á Gaza ekki borða nóg. Konurnar eru ábyrgar fyrir því að sjá fjölskyldum sínum fyrir mat, en borða minnst af öllum.

„Þegar ég tala við fjölskyldu mína á Gaza, reyni ég að veita þeim stuðning. En ég veit ekki hvernig þau munu sjá heiminn eftir þetta. Hvernig eiga þau að ná sér eftir þessa reynslu? En ég trúi því að þau muni rísa aftur upp. Það sem konur á Gaza þurfa núna er vopnahlé.“

Lítill tími til stefnu

Sameinuðu þjóðirnar hafa þungar áhyggjur af stöðu mála á Gaza og hefur WFP, Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, sent út neyðarkall vegna yfirvofandi hungursneyðar.

„Fólk á Gaza er að svelta til dauða. Þetta er manngerð krísa og hún hefur farið um svæðið eins og eldur um sinu. Við höfum aðeins lítinn glugga til þess að bregðast við og koma í veg fyrir hungursneyð og til þess þurfum við óheft aðgengi að norðurhluta Gaza. Það verður orðið of seint ef við bíðum þar til hungursneyð hefur verið lýst yfir. Þá munu þúsundir til viðbótar hafa soltið til dauða,“ sagði framkvæmdastýra WFP Cindy McCain.

Bráðavannæring á meðal barna undir fimm ára aldri hefur stóraukist á Gaza. Dauðsföllum sem ekki eru tilkomin vegna slysa eða átaka (e. non-trauma mortality) hefur fjölgað umtalsvert – en erfitt hefur reynst að halda utan um töluleg gögn vegna átakanna – og eru slík dauðsföll síðasti vísirinn að því að hungursneyð sé skollin á.

UN Women hefur unnið að því að koma matvælum til fólks á Gaza í samstarfi við WFP frá upphafi átakanna. Stofnunin hefur einnig unnið í samstarfi við palestínsk félagasamtök og Rauða hálfmánann við að koma sæmdarsettum til kvenna og stúlkna á Gaza. Með stökum styrk getur þú hjálpað okkur við að halda neyðarstarfinu áfram.

Related Posts