fbpx

Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW68) hefst í dag

Heim / Fréttir / Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW68) hefst í dag

Í dag hefst 68. Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW68) og stendur hann yfir til 22. mars. Í ár er lögð áhersla á að flýta fyrir því að jafnrétti kynjanna náist sem og valdefling kvenna og stúlkna með því að taka á fátækt, efla stofnanir og fjárfestingar með kynjasjónarmið að leiðarljósi. (e. „Accelerating the achievement of gender equality and the empowerment of all women and girls by addressing poverty and strengthening institutions and financing with a gender perspective“).

Frá opnunarviðburði CSW68. Mynd: UN Women

Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW) hefur verið haldinn árlega frá árinu 1946 og fer fram í marsmánuði í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Fundurinn stendur yfir í tvær vikur og er vettvangur fyrir aðildarríki, frjáls félagasamtök og grasrótarhreyfingar til að koma saman, deila reynslu og aðferðum við að auka jafnrétti og styrkja stöðu kvenna og stúlkna. Fundurinn er sá fjölsóttasti sinnar tegundar og kemur fólk hvaðanæva úr heiminum til að sækja hann.

 

Heimurinn græðir á hraðari framförum

Heimurinn stendur á mikilvægum krossgötum hvað jafnrétti kynjanna varðar. Í dag búa 10,3% kvenna á heimsvísu við sárafátækt og eru þær að jafnaði fátækari en karlar. Til þess að útrýma fátækt og ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (SDGs) fyrir árið 2030, þurfa hlutirnir að ganga 26 sinnum hraðar fyrir sig. En til að svo megi verða þarf að fjárfesta í hraðari framförum.

Gögn frá 48 þróunarhagkerfum sýna að 360 milljarða dollara þarf til viðbótar á ári til að ná kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna þvert á heimsmarkmiðin, þar á meðal markmiðin um að binda enda á fátækt og hungur. Framundan er viðburðaríkt ár víða um heim þar sem áætlað er að um 2,6 milljarðar fólks gangi til kosninga. Með atkvæði sínu hefur það vald til að krefjast meiri fjárfestinga og raunverulegra aðgerða í jafnréttismálum.

Það eru lausnir í sjónmáli til að binda enda á fátækt kvenna: fjárfestingar í stefnumótun og aðgerðum sem taka á kynjamisrétti og efla sjálfstæði og forystu kvenna. Slíkar fjárfestingar skila gífurlegum ávinningi fyrir samfélög. Það væri hægt að forða yfir 100 milljónum kvenna og stúlkna frá fátækt ef stjórnvöld settu menntun, kynfræðslu, aðgengi að getnaðarvörnum, sanngjörn og jöfn laun og aukna félagslega aðstoð í forgang. Tæplega 300 milljónir starfa gætu skapast árið 2035 með fjárfestingum í umönnunarhagkerfinu. Það, að minnka kynjabilið í atvinnulífinu gæti aukið verga landsframleiðslu (VLF) á mann um 20 prósent, allsstaðar.

 

Samkomulag um aðgerðir og fjárfestingar

Á CSW68 munu stjórnvöld, borgaraleg samtök, sérfræðingar og aðgerðarsinnar alls staðar að úr heiminum koma saman til að gera með sér samkomulag um aðgerðir og fjárfestingar sem geta bundið enda á fátækt kvenna og stuðlað að jafnrétti kynjanna. Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, og Anna Steinsen, formaður stjórnar UNWÍ, taka þátt í fundinum.

Ásamt samningaviðræðum aðildarríkja SÞ um bætt réttindi og stöðu kvenna og stúlkna, fara fram ýmsir hliðarviðburðir frjálsra félagasamtaka. Þar á meðal er viðburður á vegum Kvennaverkfallsins um verkfall kvenna og kvára hér á landi þann 24. október síðastliðinn.

 

Related Posts