fbpx

Tíu ár á flótta – veitum konum kraft og von

Heim / Fréttir / Tíu ár á flótta – veitum konum kraft og von

Tíu ár eru frá því að stríðið braust út í Sýrlandi og því miður sjáum við ekki fyrir endann á því. Það er staðreynd að konur og stúlkur á flótta eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi.

Í Zaatari flóttamannabúðunum eru konur og börn um 80% íbúa. Flestar konur í Zaatari glíma við áfallastreituröskun, þunglyndi og einangrun. Þær hafa orðið fyrir skelfilegum áföllum; misst börn sín, maka og ástvini. Margar þeirra eru einstæðar margra barna mæður, en konur eru fyrirvinnur á um 30% heimila þar.

UN Women er til staðar fyrir konur á flótta frá Sýrlandi og starfrækir 13 griðastaði fyrir konur í flóttamannabúðum í Jórdaníu.

Andaleeb er ein þeirra fjölmörgu kvenna sækir griðastaði UN Women í Jórdaníu. „Já, ég man daginn sem ég ákvað að flýja. Dagurinn var mjög erfiður. Maðurinn minn dó þann dag. Dagurinn var skelfilega hræðilegur,“ segir Andaleeb, 25 ára ekkja í Zaatari. Hún flúði fótgangandi með bæði börn sín í fanginu frá Sýrlandi til Jórdaníu eftir að eiginmaður hennar var myrtur fyrir framan hana og börnin. Hún segir griðastaði UN Women hafa komið sér upp úr djúpu þunglyndi og að starfið þar hafi breytt lífi sínu. Á griðastöðum UN Women fá konur:

  • Menntun og starfsþjálfun
  • Atvinnutækifæri
  • Daggæslu fyrir börn
  • Fræðslu- og forvarnastarf um skaðlegar afleiðingar þvingaðra barnahjónabanda
  • Fræðslu um sóttvarnir

Starf UN Women á griðastöðunum hefur jákvæð áhrif á líf kvenna á mörgum sviðum. Til dæmis fá nú 36% kvenna fasta atvinnu innan við þremur mánuðum eftir að þær ljúka starfsþjálfun á griðastað, og geta þannig séð fyrir fjölskyldu sinni. Á árinu 2020 hlutu:

  • Um 13 þúsund konur og stúlkur þjónustu á griðastöðum 
  • Þúsundir fjölskyldna mömmupakka með helstu nauðsynjum 
  • Konur með takmarkaðan aðgang að netinu upplýsingar um COVID-19 frá kvenleiðtogum búðanna

Ekki er útlit fyrir að konurnar og fjölskyldur þeirra séu á heimleið í bráð. Því er gríðarlega mikilvægt að þær finni  öryggi og geti lifað áhyggjulausu lífi innan búðanna. Í ár opnar UN Women fimm nýja griðastaði í Jórdaníu og með áframhaldandi stuðningi frá almenningi getum við veitt enn fleiri konum tækifæri til að lifa innihaldsríku lífi innan búðanna. Ef við leggjumst á eitt getum við gefið konum á flótta frá Sýrlandi tilgang, tækifæri til að hefja eigin rekstur og tekjur til að halda uppi fjölskyldum sínum.

En baráttunni er hvergi nærri lokið – Sendu sms-ið KONUR í 1900 (1.490 krónur).

AUR og KASS: unwomenisland

Related Posts