fbpx

Jákvæð karlmennska

Heim / Fréttir / Jákvæð karlmennska

 

Karlar og drengir geta tileinkað sér jákvæða karlmennsku og þar með hafnað ráðandi karlmennskuhugmyndum og afleiðingum þeirra. Jákvæð karlmennska grundvallast á virðingu, mennsku og jafnrétti og lærist í gegnum félagsmótun. Jákvæð karlmennska felur í sér ábyrg viðhorf, lífsgildi og hegðun meðal drengja og karla sem hefur jákvæðar afleiðingar fyrir þá sjálfa og umhverfið sem þeir eru hluti af. Með öðrum orðum vinnur jákvæð karlmennska gegn neikvæðum áhrifum samfélagslega ráðandi staðalímyndum um karla og drengi.

Jákvæð karlmennska er því sú tegund karlmennsku sem stuðlar að jafnrétti milli kynja, karlmennsku og kvenleika, og í raun meiri mennsku. Jákvæð karlmennska ber ekki með sér kynjuð valdatengsl feðraveldis karlmennsku og er því styðjandi við jafnrétti. Slík tegund karlmennsku getur haft víðtæk jákvæð áhrif í samfélagslegu samhengi.

Við hjá UN Women á Íslandi erum hluti af átaki hreyfiaflsins Karlmennskan ásamt Stígamótum, Píeta samtökunum og námsbraut í kynjafræði í Háskóla Íslands. Markmið átaksins er að hreyfa við ráðandi karlmennskuhugmyndum og styðja við jafnrétti með því að varpa ljósi á viðhorf, hegðun og breytni sem telst til jákvæðrar karlmennsku.

Átakið byggir á einföldum, leiðbeinandi og skýrum skilaboðum sem eru lýsandi fyrir jákvæða karlmennsku. Áherslan er annars vegar á að normalísera tilfinningar drengja og karla og hins vegar á upplýsta afstöðu gegn ofbeldi, staðalmyndum og misrétti. Við val á innihaldi átaksins var m.a. horft til þemagreiningar á frásögnum drengja og karla undir myllumerkinu #karlmennskan á Twitter frá árinu 2018 og því sem aðstandendur átaksins telja aðkallandi að ávarpa og tala inn í að fenginni reynslu á vettvangi og rannsóknum.

Við hjá UN Women á Íslandi tökum þátt því jákvæð karlmennska ýtir undir frelsi okkar allra, með því að hafna feðraveldinu og fagna fjölbreytileikanum. Jákvæð karlmennska felur í sér að geta sett sig í spor þeirra sem ekki njóta forréttinda, sem er grunnforsenda til að skilja kynjakerfið og er um leið vegvísir að jöfnuði í samfélaginu. Fylgist með á miðlum okkar hér

Related Posts