Takk fyrir að rugga bátnum

Home / Fréttir / Takk fyrir að rugga bátnum

JYOTI-SINGH-PANDEYHanna Eiríksdóttir, starfandi framkvæmdastýra landsnefndar UN Women á Íslandi, gerir upp 59.fund kvennanefndar SÞ og hvetur baráttufólk FreetheNipple-byltingarinnar til dáða.

„Tuttugu ár eru liðin frá því að 189 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu í Peking að vinna eftir einni róttækustu áætlun hvað varðar kynjajafnrétti. Mikilvægt er að fagna þeim framförum sem hafa átt sér stað í jafnréttisbaráttunni síðastliðin tuttugu ár og minna okkur á að enn er langt í land. Engu ríki hefur tekist að koma á fullkomnu kynjajafnrétti og víða eru konur og stúlkur enn að berjast fyrir grundvallarmannréttindum sínum. Síðan Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna kjörin forseti árið 1980 hafa aðeins 17 konur verið lýðræðislega kjörnar sem þjóðhöfðingjar. Konur sitja aðeins í 21 prósent þingsæta í heiminum, um 700 milljónir núlifandi kvenna hafa verið giftar fyrir 18 aldur, þriðjungur þeirra fyrir 15 ára aldur, og 70 prósent þeirra sem búa við sárafátækt í heiminum í dag eru konur.

Á 59. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York sem lauk fyrir tæpri viku var verið að hampa þeim árangri sem náðst hefur en einnig verið að kortleggja hvar við þurfum að gera betur.
Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að sækja fundinn. Það sem stóð upp úr hjá mér eftir hvern einasta fund eru þessar framsæknu og byltingarkenndu konur í grasrótinni sem vinna hörðum höndum að auknu kynjajafnrétti í samfélögum sínum. Þetta eru konur sem láta ekkert stöðva sig. Mér varð líka hugsað til hinnar afgönsku Farkhunda sem var myrt fyrir rúmri viku síðan í Afganistan. Hún var drepin fyrir það eina að voga sér að hækka róminn í rifrildi við klerk. Saklaust rifrildi sem olli því að hún var barin, brennd, keyrt yfir hana og að lokum var líki hennar hent í ána í Kabúl. Afganskar konur báru líkkistu Farkhunda til grafar og mótmæltu hátt! Hversu margar konur þurfa að deyja til þess að við við fáum að sjá einhverjar breytingar?

Á sama tíma og íslenskar konur frelsuðu brjóstin á Twitter, tóku sér völdin í eigin hendur og mótmæltu klámvæðingu, netníðingum og feðraveldinu, horfði ég á heimildarmyndina Dóttir Indlands (India‘s Daughter) sem sýnd var á RÚV fyrir nokkru síðan. Myndin fjallar um líf og dauða Jyoti Singh sem var hópnauðgað, barin og misþyrmt af fimm karlmönnum í strætó í desember 2012.
Málið vakti heimsathygli ekki bara fyrir hversu illa var farið með Jyoti heldur einnig viðbrögð samfélagsins í kjölfar þessarar fólskulegu árásar. Dauði Jyoti knúði fram nauðsynlegar breytingar í indversku réttarkerfi og löggjöf. Málið var kornið sem fyllti mælinn hjá ungu fólki, sérstaklega konum. Þær vilja breytingar. Jyoti kallaði ekki yfir sig að vera hópnauðgað og myrt fyrir það eitt að fara í bíó með vini sínum. Morðingjunum fannst hún eiga það skilið.
Jyoti, sem þýðir ljós á indversku, bað móður sína afsökunar á því að vera alltaf til vandræða áður en hún dró síðasta andardráttinn.
Jyoti var ekki til vandræða í lífinu. Hún fæddist í samfélagi þar sem líf karla er talið mikilvægara en líf kvenna. Hún fæddist inn í heim þar sem ekki þykir sjálfsagt að ungur stúlkur gangi í háskóla og alls ekki sjálfsagt að konur séu sjálfstæðar og taki ákvarðanir um eigið líf. Hún vildi njóta sömu tækifæra og bræður hennar. Jyoti var framfarasinni og baráttukona.

Fyrir Jyoti og allar hinar nafnlausu konur sem látið hafa lífið fyrir það eitt að vera kona hef ég bara eitt að segja. Takk fyrir að vera til vandræða.
Það er hlutverk okkar að lyfta upp öllum Jyoti-um heimsins svo að rödd þeirra fái að hljóma hátt. Það er baráttuhugur í ungum íslenskum konum og karlmönnum þessa dagana. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum. Nýtum þennan baráttuhug og tökum baráttuna alla leið í eitt skipti fyrir öll. Látum 21.öldina verða öld konunnar. Fullkomið kynjajafnrétti fyrir allar konur.

Ég hvet alla til þess að skrá sig sem mánaðarlegur styrktaraðili UN Women á Íslandi. Með því að styrkja verkefni UN Women tökum við þátt í að styðja þessar kraftmiklu konur og stúlkur sem heimta breytingar í heimalöndum sínum svo þær fái að njóta allra þeirra tækifæra sem lífið hefur upp á að bjóða. Spýtum í lófana, brjótum niður veggi feðraveldisins og búum til réttlátt samfélag þar sem konur og stúlkur standa jafnfætis karlmönnum og drengjum.“

Myndin er af Jyoti Singh

 

Related Posts