fbpx

Pistill frá ráðstefnunni um kynferðisofbeldi í átökum í London

Heim / Fréttir / Pistill frá ráðstefnunni um kynferðisofbeldi í átökum í London
Bp9DImLCQAA5QLhFyrsta alþjóðlega ráðstefnan um kynferðislegt ofbeldi í átökum var haldin í London dagana 10.-12. júní 2014. Hún var skipulögð fyrir tilstuðlan utanríkisráðherra Bretlands, William Hague og leikkonunnar Angelinu Jolie.
Frá árinu 2012 hefur 151 þjóð skrifað undir skuldbindingu til sameiginlegs Átaks Gegn Kynferðislegu Ofbeldi. Í ár koma saman aðgerðarsinnar, embættismenn og fræðimenn með það að markmiði að vinna saman að hagnýtum aðgerðum til þess að koma betur til móts við fórnarlömb; stuðla að bættum rannsóknum og ákærum vegna kynferðislegs ofbeldis í átökum og að lokum að binda enda á beitingu kynferðislegs ofbeldis sem vopns í átökum.
Þar sem ég bý í London og hef mikinn áhuga á þessum málefnum og starfi sem tengist þeim ákvað ég að skella mér á fyrsta dag hliðarráðstefnu sem fram fór samhliða stóru ráðstefnunni. Þar komu saman samtök sem berjast gegn kynferðislegu ofbeldi eða vinna að málefnum kvenna og stúlkna í átökum, héldu fyrirlestra, sýndu leikrit og heimildarmyndir, og kynntu starfsemi sína.
Í boði var fjöldi kynninga á frábærum verkefnum þar sem unnið er sérstaklega með strákum og karlmönnum að því að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi almennt og stuðla að breyttum viðhorfum og gagnkvæmri virðingu milli kynjanna. Kynferðislegt ofbeldi er ekki vandamál sem einskorðast við konur því verður að virkja karlmenn og stráka til að raunveruleg breyting á viðhorfum og hegðun geti átt sér stað. Í því samhengi má til dæmis nefna bandarísku samtökin Return to Manhood sem leggja áherslu á svokallaða uppvaxtarfræðslu fyrir unga menn sem kennir þeim að virða gildi eins og samvisku, dugnað, hugrekki og ábyrgðarkennd gagnvart fjölskyldu sinni og samfélagi.
Eftir þetta hélt ég á áhugaverðar pallborðsumræður um hvernig eigi að vinna bug á ofbeldi gegn konum í Miðausturlöndum. Þar kynnti Shereen El-Feki, sem meðal annars er rithöfundur bókarinnar Sex and the Citadel: Intimate Life in a Changing Arab World, rannsókn sína um viðhorf kynjanna til ofbeldis gegn konum í Miðausturlöndum. Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að menntun beggja kynja skipti gífurlega miklu máli þegar kemur að umburðarlyndi gagnvart ofbeldi gegn konum. Því næst fékk ég að heyra um starfsemi ABAAD (Resource Centre for Gender Equality in the MENA Region) og átak Sonke Gender Justice og Promundo sem öll lögðu áherslu á mikilvægi karlmanna sem áhrifavaldar breytinga þegar kemur að kynbundnu ofbeldi. Samskonar átaksverkefni, The Men Care Campaign, byggir t.d. á því hugarfari að með því að efla menn sem umhyggjusama og ofbeldislausa feður muni samfélög dafna þegar kemur að heilbrigðismálum, jafnrétti kynjanna og almennum lífsgæðum.
Í öðrum endanum á risastórum salnum, í uppblásinni kúlu, stóðu Refugee Law Project fyrir kynningu á starfi sínu með karlkyns þolendum kynferðislegs ofbeldis í Úganda. Áherslan á þennan hóp hefur hingað til verið heldur takmörkuð og því lítill skilningur á því hvernig skuli takast á við þessa tegund ofbeldis og afleiðingar þess fyrir þolendur og samfélög þeirra. Ég mæli eindregið með heimildarmynd þeirra Gender Against Men sem má nálgast á Youtube-síðu þeirra hér.
Í lok dags fór ég á pallborðsumræður sem voru skipulagðar af Chatham House og fjölluðu um aukningu á ofbeldi gegn konum frá upphafi arabíska vorsins. Í umræðunum kom fram að líkamar kvenna hafa í auknum mæli verið „notaðir til að brjóta andstöðu, notaðir til að sýna vald og nýttir til hagnaðar og unaðar”. Í Egyptalandi mátti sjá kerfisbundið ofbeldi gegn kvenmótmælendum með það að markmiði að brjóta andstöðu á bak aftur og í Líbíu hafa verið framin mannrán og árásir á kvenkyns þingmenn. Dæmi eru um tilraunir til að þvinga konur úr opinberum störfum og síðast en ekki síst má sjá glæpamenn víðast hvar nýta sér glundroðann og óöryggið sem fylgir átökum til að græða á líkömum kvenna. Í rannsókn um reynslu Sýrlenskra kvenna í flóttamannabúðum í Jórdan kom fram að meginástæða flótta allra kvennanna, sem rætt var við, var kynferðislegt ofbeldi, eða óttinn um kynferðislegt ofbeldi. Óttinn var svo mikill að ein kona sagðist „heldur vilja deyja en vera nauðgað“, og önnur sagðist „heldur vilja vera grafin en að vera snert“.
Þetta var langur en lærdómsríkur dagur, og ég vildi að ég hefði komist alla dagana. Hér má fá frekari upplýsingar um formlegu hlið ráðstefnunnar.
-Helga Sólveig Gunnell skrifar frá London.
Related Posts