Pink Iceland og Sjóvá hljóta jafnréttisverðlaun

Home / Fréttir / Pink Iceland og Sjóvá hljóta jafnréttisverðlaun

Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2020 voru í dag veitt í sjöunda sinn á rafrænum viðburði. Í ár hlaut Sjóva verðlaunin en einnig hlaut Pink Iceland sérstök sprotaverðlaun. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti verðlaunin.

Eva María Þórarinsdóttir Lange, eigandi og framkvæmdastjóri Pink Iceland, Þórdís Kolbrún, ráðherra , Birna Hrönn Björnsdóttir og Hannes Páll Pálsson, meðeigendur Pink Iceland.

Í rökstuðningi dómnefndar kom m.a. fram:

Sjóvá var fyrsta fyrirtækið til að fá 10 á kynjakvarða Kauphallarinnar GEMMAQ og hefur náð góðum árangri í að jafna kynjahlutföll með skýrri stefnu og skipulögðum ákvörðunum um ráðningar. Sjóvá sýnir mikið frumkvæði með því að bjóða upp á framlengingu fæðingarorlofs sem nemur sex vikum á 80% launum.

Í rökstuðningi dómnefndar um Pink Iceland segir meðal annars:

Fyrirtækið einblínir ekki aðeins á tvö kyn heldur er áhersla á það mannlega, að við eigum öll að búa við jafnrétti, virðingu og frelsi. Áhersla er lögð á að stefna og vinnubrögð birgja samræmist stefnu fyrirtækisins. Þá velur fyrirtækið samstarfsaðila sem vinna eftir gæða-, umhverfis- og siðferðilegum kröfum. Fyrirtækið býður samstarfsaðilum sínum upp á fræðslu um jafnréttismál og er þannig hvetjandi afl í að skapa aukið jafnrétti á vinnumarkaðnum og í samfélaginu.

Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá, Þórdís Kolbrún ráðherra og Ágústa Bjarnadóttir forstöðumaður mannauðs Sjóvá.

Á þessum morgunfundi um jafnréttismál voru tvö erindi flutt. Annars vegar ræddi Úlf Viðar Níelsson, prófessor við Háskóla Íslands um #Metoo og virði fyrirtækja og hins vegar ræddu Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, hagfræðinemi og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá SA um kynjahlutföll og stjórnendur í íslensku viðskiptalífi.

Hingað til hafa Festa, Háskóli Íslands, Samtök atvinnulífsins og UN Women á Íslandi staðið að verðlaununum. Á þessum sjö árum hafa mörg framfaraskref verið tekin í atvinnulífinu í jafnréttismálum. Því teljum við hjá UN Women á Íslandi á þessum tímapunkti, sé komið að því að UN Women á Íslandi dragi sig út úr samstarfinu sem framkvæmdaraðila Hvatningarverðlauna jafnréttismála og afhendir keflið að fullu Samtökum atvinnulífsins og Háskóla Íslands.

Um leið og við þökkum samstarfsaðilum okkar gott samstarf óskum við þeim góðs gengis og hvetjum þá til dáða að halda merkjum jafnréttis á lofti.

Related Posts