fbpx

Örugg borg herferð UN Women á Íslandi

Heim / Fréttir / Örugg borg herferð UN Women á Íslandi

fb cover 851x315UN Women á Íslandi ýtir úr vör herferð til að skapa konum og börnum öruggt líf án ótta við ofbeldi.

„Ofbeldi gegn konum og stúlkum er heimsfaraldur. Óhætt er að segja að það ríki neyðarástand í stórborgum víðsvegar um heiminn þar sem konur og stúlkur eiga erfitt með að ferðast til og frá vinnu eða sækja skóla vegna ótta við ofbeldi og áreitni í almenningsrýmum. Meira að segja í öruggustu borgum heims eins og Reykjavík verða konur fyrir ofbeldi af ýmsu tagi,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women.

Staðreyndir um kynbundið ofbeldi í borgum:
•    99,3 prósent kvenna og stúlkna á þéttbýlissvæðum í Egyptalandi hafa upplifað kynferðislega áreitni og um helmingur þeirra verður fyrir áreitni daglega.
•    95 prósent kvenna í Nýju Delí á Indlandi finnst þær ekki öruggar á götum úti. 73 prósent þessara kvenna upplifa ekki einu sinni öryggi í sínu nánasta umhverfi.
•    Þrír af hverjum fjórum karlmönnum í sömu rannsókn telja að konur eigi sjálfar sök á ofbeldinu þar sem þær bjóði upp á það með tilteknum klæðnaði.
•    Tveir af hverjum fimm karlmönnum í Nýju Delí telja að konur sem eru á ferli eftir myrkur beri sjálfar ábyrgð á því að vera áreittar.
•    43 prósent kvenna í London höfðu upplifað kynferðislega áreitni á götum úti á síðastliðnu ári.
•    42 prósent kvenna í Kígalí óttast að sækja skóla í dagsbirtu og 55 prósent eftir myrkur. Ótti við áreitni hefur áhrif á daglegt líf kvenna og skerðir lífsgæði þeirra verulega.
•    Konu er nauðgað á 90 sekúnda fresti í Suður Afríku.
•    Um 70 prósent íslenskra kvenna upplifa sig óöruggar í miðborg Reykjavíkur að næturlagi.

Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) er alþjóðlegt verkefni UN Women. Borgaryfirvöld 18 landa hafa heitið því að gera borgina sína öruggari fyrir alla.

„Markmið Öruggra borga er að skapa konum, unglingum og börnum öruggt líf í borgum án ótta við ofbeldi og er það unnið í samstarfi við borgaryfirvöld og frjáls félagasamtök á hverjum stað,“ segir hún. „Sem dæmi um ástandið má nefna að 95 prósent kvenna í Nýju Delí á Indlandi finnst þær ekki öruggar á götum úti.“

Reykjavíkurborg lætur sitt ekki eftir liggja og skrifar í næstu viku undir samning um að höfuðborgin verði örugg borg.

Síminn hefur í samstarfi við samtökin fengið framleiðslufyrirtækið Tjarnargötuna til að framleiða þrjú gagnvirk myndbönd sem sýna íslenskan veruleika kvenna sem verða fyrir áreitni í ólíkum aðstæðum. Áhorfendur skyggnast inn í heim bæði þolenda kynferðisofbeldis og gerenda slíks ofbeldis með því að tengja saman tölvu og síma.

Skoða myndband.

Vilt þú taka þátt í að skapa konum og börnum um heim allan öruggara líf án ótta við ofbeldi? Sem mánaðarlegur styrktaraðili UN Women á Íslandi leggur þú þitt af mörkum í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Vertu með!  Það tekur aðeins mínútu að skrá sig.

Related Posts