Opnunarbjöllu hringt fyrir jafnrétti 8. mars

Home / Fréttir / Opnunarbjöllu hringt fyrir jafnrétti 8. mars

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. mars er næsta mánudag. Við hjá UN Women á Íslandi tökum daginn föstum tökum og hefjum dagskrá kl. 9.15 í Hörpu.

Kauphöllin (e. Nasdaq Iceland) í samstarfi við UN Women á Íslandi, FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök atvinnulífsins efna til viðburðar í tilefni dagsins. Er þetta í fjórða sinn sem opnunarbjöllu er hringt fyrir jafnrétti á þessum degi en þess má geta að kauphallir í yfir 90 löndum í samstarfi við UN Women víða um heim hringja inn bjöllu fyrir jafnrétti þann 8. mars. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála verður heiðursgestur viðburðarins og hringir bjöllunni í ár. Bjölluhringingin er hvatning til allra í einkageiranum að vera kyndilberar jafnréttis og mannréttinda í orði sem á borði.

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í ár beinir UN Women sjónum að kvenleiðtogum, kvennasamtökum og svokölluðum kvennastéttum og hlutverki þeirra við að móta jafnari framtíð í kjölfar Covid-19 faraldursins. Sem aldrei fyrr er jöfn þátttaka kvenna við ákvörðunartöku, gerð stefnumála og lagasetninga viðurkennd, sem skilar sér í betra samfélagi fyrir alla og hefur m.a. sýnt sig í viðbrögðum við COVID-19.

Kassamerkiið #ChooseToChallenge vekur máls á kynjahlutdrægni og ójafnrétti en er einnig ætlað að fagna vinnu og afrekum kvenna.

Viðburðinum verður streymt m.a. á Facebook síðu UN Women á Íslandi.

Staður og tími: Harpa – Hörpuhorn, 2. hæð, mánudaginn 8. mars kl. 9.15-10.

Related Posts