Áskorun tekið?

Home / Fréttir / Áskorun tekið?

Ég geri ráð fyrir að við séum flest orðin þreytt á grímum, samkomutakmörkunum og umræðu um bóluefni eftir heilt ár af COVID-19 faraldri. Það má. Veruleiki og umhverfi okkar móta áskoranir okkar í faraldrinum.

Allir heimshlutar hafa fengið að finna fyrir veirunni og það er hollt að líta sér fjær. Setja sig í spor fólks sem býr við aðra menningu, umhverfi og býr jafnvel ekki við félagsleg kerfi í nokkurri mynd. Íbúar viðkvæmra svæða sem búa við krefjandi aðstæður mæta nú afleiðingum faraldursins á máta sem er framandi þeim, eðlilega, sem hafa nýverið lært að endurmeta morgunspjallið við kaffivélina í vinnunni og dýrmætar sundferðir og líkamsrækt.

Við hjá UN Women á Íslandi ásamt öllum helstu samtökum hér á landi sem starfa í alþjóðlegri þróunarsamvinnu stöndum að fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt, í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Afurð átaksins er fræðsluþátturinn Stóra myndin: COVID og heimsbyggðin sem var á dagskrá Rúv í gærkvöldi og sýndi hvernig COVID-19 setti af stað keðjuverkun sem hefur haft ófyrirséð áhrif á líf fólks um allan heim, ekki síst sértæk áhrif á konur og stúlkur í efnaminni ríkjum.

En hver eru áhrifin?

Skuggafaraldur kynbundins ofbeldis hefur farið vaxandi um heiminn. Nýjustu úttektir UN Women benda til þess að þrír mánuðir af útgöngubanni þýði að 15 milljónir kvenna og stúlkna til viðbótar verði beittar kynbundnu ofbeldi á heimsvísu. Auk þess hefur hættan á mansali aukist sem og vændi vegna neyðar. Tölur yfir þvinguð barnahjónabönd og brottfall stúlkna úr námi fara nú hækkandi í ljósi lokana skóla og efnahagsþrenginga. Á viðkvæmustu svæðunum í efnaminni ríkjum eiga stúlkur því í mikilli hættu á að vera þvingaðar í hjónaband. Á þessu ári er áætlað að yfir fjórar milljónir kvenna og stúlkna muni bætast í hóp þeirra sem eiga í hættu á að vera limlestar á kynfærum sínum. En vegna COVID-19 mun sú tala því miður hækka. Reiknað er með að yfir 200 þúsund stúlkur bætist við hópinn á ári, næstu tíu árin.

Á tímum COVID-19 dettur gjarnan önnur heilbrigðisþjónusta niður meðan barist er við heilbrigðisvá faraldursins. Við sjáum þetta bæði í nær og fjærsamfélögum. Fyrir vikið er reiknað er með verulegri hækkun á mæðradauða í heiminum. Í dag deyja um 25 þúsund konur í barnsburði á mánuði í heiminum og reiknað er með að sú tala hækki í um 35-40 þúsund á hverjum einasta mánuði.

Augljóst hvaða hópi stafar mest ógn af efnahagskreppunni

Ef tekið er mið af þeirri staðreynd að 740 milljónir kvenna um allan heim starfi utan formlegra hagkerfa er augljóst hvaða hópi stafar mest ógn af þessari stærstu efnahagskreppu okkar tíma. Konur eru líklegri til að missa vinnuna og festast frekar við ólaunuð heimilis- og umönunarstörf. Meginþorri íbúa efnaminni ríkja, sérstaklega konur, starfa í hinum svokallaða óformlega geira, utan formlegra hagkerfa án réttinda og starfsöryggis. Á tímum sem allt lokar, þá missir fólk lífsviðurværi sitt og ekkert kerfi bætir það upp. Þess má geta að 74% kvenna í Afríku starfa í óformlega geiranum.

Heimsmarkmið 5 snýst um jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna og stúlkna. Erfitt er að horfast í augu við þá staðreynd að takmark þessa markmiðs er nú fjarlægara en nokkru sinni. Með auknum ójöfnuði og þeim vandamálum sem fylgja félagslegum og efnahagslegu áhrifum heimsfaraldursins höfum við dregist langt aftur úr. En það er ljós við enda ganganna. Þróunarsamvinna vinnur gegn þessum neikvæðu þáttum heimsfaraldursins í efnaminni ríkjum. Með tryggum framlögum og öflugum þróunarsamvinnuverkefnum má draga úr skaðlegum afleiðingum COVID-19 á líf kvenna og stúlkna. Það er í okkar allra höndum, ekki síst stjórnvalda, að takast á við afleiðingar COVID-19 í efnaminnstu ríkjum heims í þágu þeirra berskjölduðustu. Það er áskorun sem við eigum og verðum að taka.

Marta Goðadóttir, kynningarstýra UN Women á Íslandi.

Misstir þú af þættinum?

Stóra myndin: COVID og heimsbyggðin er aðgengilegur í sarpi RÚV.

Related Posts