Mikilvægasti fundur ársins: Fundur Kvennanefndar SÞ

Home / Fréttir / Mikilvægasti fundur ársins: Fundur Kvennanefndar SÞ

Stella Samúelsdóttir, Arna Grímsdóttir formaður stjórnar UN Women og Unnsteinn Manuel Stefánsson verndari UN Women á Íslandi.

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýran okkar er mætt í hringiðuna – 62. fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem haldinn er árlega í New York. Í ár er sjónum beint að réttindum, stöðu og valdeflingu kvenna í dreifbýli;  hvernig tryggja megi þeim aukin réttindi, atvinnutækifæri, fæðuöryggi, aðgang að ræktunarlöndum, tækni, menntun, heilsu og hvernig uppræta megi ofbeldi gegn konum og stúlkum í dreifbýli.

„Kjarni þess að skilja engan útundan felst í veita öllum jöfn tækifæri. Eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið við að koma á fullkomnu kynjajafnrétti í heiminum fyrir árið 2030 er að uppræta ójafnrétti og mismunun gagnvart konum og stúlkum í dreifbýli um allan heim. Slíkar framfarir í þágu kvenna og stúlkna skila sér sem framfarir allrar heimsbyggðarinnar,“ segir Phumzile Mlambo Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women.

Fjölmiðlar hrúgast að Unnsteini Manuel að pallborðsumræðum loknum.

Unnsteinn Manuel Stefánsson, annar verndari UN Women á Íslandi, er einnig staddur í New York og tók þátt í viðburði á vegum Velferðarráðuneytisins sem bar yfirskriftina „Digital Gender Violence and Hate Speech“ þar sem fjallað var um notkun samfélagsmiðla og hlutverkið sem þeir spila í nútímasamfélagi. „Það er mikill heiður að fá að vera hérna og þrátt fyrir að það sé mikill spenningur fyrir því sem Ísland er að gera sjáum við alltaf eitthvað sem betur má fara. Sérstaklega gaman að sjá hvað það er mikið í gangi í jafnréttismálum útum allan heim, ekki bara á Vesturlöndum,“ sagði Unnsteinn Manuel Stefánsson. Unnsteinn tók þátt í pallborðsumræðum ásamt Maríu Rún Bjarnadóttur, doktorsnema í lögræði og netníð, Ásmundi Einari Daðasyni velferðarráðherra og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingkonu Samfylkingar. 

Staðreyndir:

  • Konur og stúlkur í dreifbýli standa frammi fyrir margþættum hindrunum sem skilar þeim lágum launum og festa þær í fátæktargildrum. Konur og stúlkur í dreifbýli fá allt upp í 40% lægri laun en karlmenn sem fást við sömu störf.
  • Konur eru tæplega helmingur allra bænda og framleiða um helming alls matar í heiminum. Engu að síður eru konur innan við 20% landeigenda í heiminum.
  • Tækniframfarir ná yfirleitt síðast til kvenna í dreifbýli. Á 80% heimila sem búa við vatnsskort eru konur og stúlkur ábyrgar fyrir að sækja og bera vatn fyrir heimilið.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með fréttum frá Kvennanefndarfundi SÞ á unwomen.is og Facebooksíðu samtakanna.

Related Posts