fbpx

Mikið rætt um netníð á fundi kvennanefndar í NYC í gær

Heim / Fréttir / Mikið rætt um netníð á fundi kvennanefndar í NYC í gær

krofuganga 2Hanna Eiríksdóttir,starfandi framkvæmdastýra, er stödd á 59.fundi kvennanefndar SÞ í New York. Hér segir hún frá áhrifaríkum erindum á fyrsta degi ráðstefnunnar:

„Á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna efndi UN Women til kröfugöngu sem endaði á Times Square. Fólk hvaðanæva úr heiminum var þar komið saman og Ban ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Phumzile Mlambo-Ngucka, framkvæmdastýra UN Women héldu meðal annars ræður. Ég bjóst við að sjá Times Square stappað af fólki en í stóra samhenginu var þessi ganga lítil, ég er nokkuð viss um að fleira fólk mæti í Druslugönguna í Reykjavík en í þessa göngu. Við sem búum á Íslandi erum stórhuga fólk.
Á fyrsta degi CSW var margt um manninn í höfuðstöðvum SÞ. Ég las einhvers staðar að um níu þúsund manns hafi gert sér ferð til NYC á fundinn. Á fyrsta degi stóð upp úr, að tveir af fjórum fundum fjölluðu um ofbeldi á Netinu og mikilvægi þess að stjórnvöld bregðist við þessari mjög svo hörðu birtingarmynd ofbeldis. Netið er stór hluti af lífi okkar og leggja stjórnvöld víða mikið upp úr greiðum aðgangi að Netinu. En því fylgir ábyrgð. Vernda þarf tjáningarfrelsið en það er líka mikilvægt að vernda öruggi kvenna sem verða fyrir barðinu á netníðingum.Einnig var rætt um ábyrgð fyrirækja á borð við Facebook. Þegar konur verða fyrir ofbeldi á Netinu, leita þær yfirleitt fyrst t.d til Facebook og Twitter. Ríki og einkafyrirtæki hafa það hlutverk að vernda konur og stúlkur.

Samkvæmt tölum frá vefátakinu gegn kynbundnu ofbeldi á Netinu, Take Back the Tech, eru ungar stúlkur í stórum áhættuhópi ( 18-30 ára). Ég hef sjálf fylgst með þessari umræðu á Netinu. Við fáum sífellt oftar fréttir af stúlkum sem orðið hafa fyrir miklu ofbeldi á Netinu. Frægasta dæmið er örugglega Steubenville- málið, þar sem ungir strákar birtu myndband á Netinu þegar þeir nauðguðu ungri stúlku. Annað frægt og afar sorglegt mál er af hinni kanadísku Rehtaeh Parsons, sem framdi sjálfsmorð árið 2013, aðeins 17 ára gömul, eftir að skólafélagar hennar birtu myndband af henni á Netinu þar sem sýnt var þegar henni var nauðgað af hópi manna. Niðurlægingin var svo mikil að hún tók sitt eigið líf. Ég hlustaði á pabba hennar, Glen Canning, fara með fallega og áhrifamikla ræðu, en hann hefur tileinkað lífi sínu baráttunni gegn svokölluðum cyber-terrorisma eins og hann kallaði það. „Því miður er saga dóttur minnar ekki einstök. Það er ekki tekið nógu vel á þessum málum. Þegar stúlkur leita sér hjálpar er þeim sagt að hætta á Facebook, taka sér frí frá skólanum eða bara hreinilega ekki fara á Netið,“ sagði Canning. „Kerfið er að bregðast öllum þessum stelpum og strákum sem verða fyrir slíku ofbeldi. Gerendur slíks ofbeldis verða að vera sóttir til saka. Börnin okkar eiga betra skilið,“ hélt hann áfram. Hann tók einnig fram að samfélagsmiðlar bjóði upp á endalausa möguleika og geta gert líf okkar miklu betra, en ef við bregðumst ekki við öllu því ljóta ofbeldi sem á sér stað á Netinu þá munu þeir eyðileggja líf okkar.“

Rehtaeh Parsons, skömmu áður en hún tók eigið líf aðeins 17 ára gömul.

rehtaeh-parsons 2

 

Related Posts