fbpx

59.fundur kvennanefndar SÞ hefst í dag

Heim / Fréttir / 59.fundur kvennanefndar SÞ hefst í dag

IWD March8 BankiMoon PhumsileFimmtugasti og níundi fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (Convention of the Status of Women – CSW) hefst í dag í New York og tekur Landsnefnd UN Women á Íslandi þátt í fundinum.

Þema fundarins í ár er Peking-sáttmálinn sem fagnar 20 ára afmæli á þessu ári. Sáttmálinn er enn helsta grundvallarstoð í kvenréttindabaráttu um heim allan, meira um sáttmálann hér.

Róttækar breytingar hafa átt sér stað á þessum 20 árum. Þátttaka kvenna í stjórnmálum hefur aukist til muna og aldrei hafa fleiri stúlkur verið í skóla. Því miður er þó enn langt í land. Ofbeldi gegn konum er útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum í dag, þúsundir stúlkna eru þvingaðar í hjónaband á hverjum einasta degi og 70 prósent þeirra sem búa við sáráfátækt í heiminum í dag eru konur. Það er skylda aðildarríkjanna, alþjóðastofnana, ríkisstjórna heimsins og grasrótarsamtaka að setja konur og stúlkur í forgrunn.
„Peking-sáttmálinn er óuppfyllt loforð til kvenna og stúlkna,“ segir Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastýra UN Women.

Í tilefni af 20 ára afmæli sáttmálans stendur UN Women fyrir árslangri herferð sem miðar að því að kynna sáttmálann fyrir almenningi, sýna hvaða árangur hefur náðst á þessum 20 árum en einnig að skoða hvar við þurfum að bæta okkur og beita aðildarríki þrýstingi til að leggja ríkari áherslu og meira fjármagn til jafnréttismála.
UN Women hefur opnað sérstaka heimasíðu fyrir átakið www.beijing20.unwomen.org. Þar er hægt að lesa sér til um sáttmálann en í hverjum mánuði verður einblínt á einn flokk og eitt málefni. Íslenska Landsnefndin mun að sjálfsögðu taka þátt í átakinu, vera sýnileg á samfélagsmiðlum og birta fréttir og sögur í tengslum við Peking-sáttmálann.
Þess má geta að hugmyndina að herferð UN Women átti Gréta Gunnarsdóttir, fyrrum fastafulltrúi Íslands hjá SÞ í New York. Gréta er, eins og mörgum er kunnugt, einn af stofnendum Landsnefndarinnar.
Fundurinn stendur yfir í tvær vikur og er þessi vettvangur frábært tækifæri fyrir aðildarríki og frjáls félagasamtök að koma saman, deila reynslu og aðferðum við að auka jafnrétti kvenna og stúlkna. Óhætt er að segja að andrúmsloftið í New York að þessu sinni verði magnað og mun Hanna Eiríksdóttir, starfandi framkvæmdastýra UN Women‚ taka þátt í og fylgjast með spennandi hliðarviðburðum frjálsra félagasamtaka og samningaviðræðum aðildarríkja SÞ. Hanna mun blogga frá fundinum hér á heimasíðu samtakanna og því hvetjum við ykkur til að fylgjast vel með.
Einnig má fylgjast með framgangi fundarins á samfélagsmiðlunum undir kassamerkinu #CSW59

Á myndinni hér að ofan má sjá Ban Ki-moon, aðalritara SÞ og Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýru UN-Women leiða kröfugöngu á strætum New York-borgar sem efnt var til af tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna þann 8.mars, í gær. Meira um Alþjóðlegan baráttudag kvenna í New York hér.

 

Related Posts