fbpx

Ljósaganga tileinkuð konum á flótta

Heim / Fréttir / Ljósaganga tileinkuð konum á flótta

979906_384209141712445_1420359342_oLjósaganga UN Women fer fram á morgun, föstudaginn 25. nóvember á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem UN Women á Íslandi ásamt öðrum félagasamtökum hér á landi eru í forsvari fyrir.

Yfirskrift Ljósagöngunnar í ár er – Konur á flótta. Maryam Raísi leiðir gönguna í ár og flytur viðstöddum hugvekju. Maryam og móðir hennar, Torpikey Farrash, hafa verið á flótta undanfarin 15 ár. Þegar Maryam var fjögurra ára gömul tóku talíbanar völdin í Afganistan og neyddust mæðgurnar til að flýja frá Kabúl. Allar götur síðan hafa þær verið á flótta og flakkað milli Írans og Afganistan. Þegar stríðsherra í Afganistan ætlaði að taka sér Maryam sem konu flúðu mæðgurnar til Evrópu og síðar til Svíþjóðar eftir langt og strangt ferðalag. Eftir þriggja ára dvöl þeirra í Svíþjóð var þeim neitað um hæli. Þá héldu þær næst til Íslands þar sem þeim var neitað um hæli eftir þriggja mánaða dvöl. Í fjóra mánuði hafa þær beðið eftir símtali milli vonar og ótta. Þær ánægjulegu fréttir bárust í fyrri hluta síðustu viku að kærunefnd útlendingamála hefur vísað málinu aftur til Útlendingastofnunar sem þýðir að þeim verður ekki vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og málið verður skoðað frá upphafi hér. Þátttaka Maryam í göngunni í ár er táknræn fyrir þá hörmulegu stöðu sem milljónir flóttakvenna um allan heim búa við.

Gangan hefst klukkan 17.00 á Arnarhóli við styttu Ingólfs Arnarsonar. Þar mun Harpa blasa við lýst upp í appelsínugulum lit líkt og aðrar merkar byggingar víða um heim. En appelsínuguli liturinn er táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis. Hægt verður að kaupa kyndla á staðnum á 1.000 kr.

Einnig verða nýir verndarar UN Women á Íslandi kynntir í upphafi göngunnar.

65 milljónir manna eru á flótta í heiminum núna og aldrei hafa fleiri konur verið á flótta. Við þær hörmulegu aðstæður og neyð sem fólk býr við eru konur og stúlkur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi. UN Women starfar í þágu kvenna um allan heim og styður m.a. við konur á flótta. UN Women dreifir t.d. sæmdarsettum til kvenna sem innihalda helstu nauðsynjar. UN Women á Íslandi hvetur alla til að senda sms-ið KONUR í 1900 (1.490 kr.) og veita konum á flótta frá Mosul vasaljós, dömubindi og sápu.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Related Posts