Líkami kvenna er vígvöllur sem barist er á

Home / Fréttir / Líkami kvenna er vígvöllur sem barist er á

 MND4356 Photo Mirjana NedevaMálefni flóttakvenna eru ofarlega á baugi á 60. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í ljósi mesta flóttamannastraums síðan eftir seinni heimsstyrjöldina en talið er að yfir 60 milljónir manns hafi þurft að flýja heimalönd sín og séu á vergangi.

Konur og börn eru sérstaklega berskjölduð gagnvart ofbeldi, misnotkun og mansali á flótta eða í og við flóttamannabúðir.
Á áhugaverðum fundum undanfarna daga hafa sérfræðingar í málefnum flóttakvenna ítrekað bent á að mikilvægt sé að beina sjónum að mansali, barnahjónaböndum, ógninni sem stafar af vígasveitum íslamska ríkisins og að hve gríðarlega mikilvægt er að auka fjármuni til að tryggja öryggi kvenna og barna.
Á öllum fundum er snúa að málefnum kvenna á flótta, kynbundu ofbeldi og réttindum kemur það skýrt fram að vandinn sem við stöndum frammi fyrir er ekki nýr. Sýrlenskar konur sem eru að flýja hörmulegar aðstæður í heimalandi sínu eru að flýja af sömu ástæðum og konur gerðu þegar þær flúðu frá í Rúanda og frá fyrrverandi Júgóslavíu; þar sem líkami kvenna er sá vígvöllur sem barist er á.
Konur á flótta standa frammi fyrir margvíslegri hættu og mansal er útbreitt vandamál. Konum og stúlkum er rænt. Þær ganga kaupum og sölum, þeim er nauðgað og neyddar í kynlífsánauð af smyglurum til þess að borga fyrir ferð sína. Á fundi um mannréttindi flóttakvenna fullyrti Zainab Bangura, sérstakur erindreki SÞ. Um kynferðisofbeldi á átakasvæðum að konur séu seldar á opnum mörkuðum og verðgildi þeirra hækki eftir því yngri sem þær eru. Því er mikilvægara sem aldrei fyrr að ræða um mansal og samhæfa aðgerðir á alþjóðlega vettvangi. Því miður er staðan sú að ekki er til nægileg tölfræði yfir hversu útbreitt vandamál mansal er og því er oft erfitt að bregðast rétt við.
Tíðni barna- og þvingaðara hjónabanda fer ört vaxandi á átakasvæðum og sérstaklega hjá stúlkum á flótta og sem dvelja í flóttamannabúðum. Neyðin er slík að fjölskyldur sjá ekkert annað í stöðunni en að gifta dætur sínar í burtu. Þá séu þær að minnsta kosti öruggar gegn kynferðisofbeldi á landamærastöðvum og í flóttamannabúðum. Allir pallborðsþátttakendur tóku skýra afstöðu þess efnis að ekki undir neinum kringumstæðum sé það réttætanlegt að gifta kornungar stúlkur og að afsökunin „þetta tilheyrir menningu okkar” sé óásættanleg. Osotimehin Babatunde, framkvæmdastjóri UNFPA sagði, “Að gifta ungar stúlkur er valdmisbeiting og viðheldur sögulegu ójafnrétti milli kynjanna. Það er aldrei í lagi.”
Getnaðarvarnir notaðar sem vopn gegn konum
Vígamenn íslamska ríkisins misnota líkama varnarlausra kvenna og stúlkna á hrottafenginn hátt og bent hefur verið á hvernig vígamennirnir hafa nýtt sér hina ýmsu tækni- og uppfinningar sér til framdráttar líkt og getnaðarvarnir og samfélagsmiðla. Líkt og fram kemur í sláandi grein í NY Times síðastliðinn sunnudag, þvinga vígamennirnir konur í kynlífsþrælkun til að vera á getnaðarvörnum til að forðast þungun. Þetta er fyrst og fremst gert í þeim tilgangi að þær falli ekki í verði, verði þær þungaðar en þungaða konu er ekki hægt að endurselja til annarra manna. Til þess að sporna við vígamönnum íslamska rískins verður alþjóðasamfélagið að ná til þeirra, sem hefur ekki gengið hingað til, og gerir það mun erfiðara fyrir við að berjast gegn þeim.
Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að veita fjármagn í vernd og öryggi varnarlausra kvenna eins og konum á flótta. Mikilvægt er að tryggja örugg svæði í flóttamannabúðum og við landamærastöðvar.
Kynjuð aðstoð er mikilvægari sem aldrei fyrr og aðstoðin má ekki einungis snúast um tjöld og matarúthlutanir heldur verður að miða að því að tryggja öryggi kvenna og barna.

Mynd: Mirjana Nedeva

Related Posts