Landsbankinn gefur þrjár milljónir til HeForShe hreyfingar UN Women

Home / Fréttir / Landsbankinn gefur þrjár milljónir til HeForShe hreyfingar UN Women

Landsbankinn veitir UN Women á Íslandi styrk í nafni framúrskarandi fyrirtækja til að vekja karlmenn og stráka sérstaklega til vitundar um mikilvægi þess að beita sér fyrir kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi.

Nýlega var listi yfir þau 876 fyrirtæki sem hlutu viðurkenningu Creditinfo fyrir framúrskarandi árangur í rekstri kynntur. Í ljósi þess að stór hluti fyrirtækjanna eru í viðskiptum hjá Landsbankanum færir bankinn öllum þeim fyrirtækjum hamingjuóskir með glæsilegan árangur og gefur í þeirra nafni Landsnefnd UN Women á Íslandi hvorki meira né minna en þrjár milljónir króna til að efla HeForShe hreyfingu UN Women.

„Styrknum verður varið í herferð sem ætlað er opna augu almennings, sérstaklega karlmanna og stráka, fyrir þeim skaðlegu afleiðingum sem kynjamisrétti felur í sér fyrir alla, óháð kyni, og auka þátttöku þeirra og vitund um ávinning þess fyrir alla, raunverulegt kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna,” segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Hingað til hefur gjarnan verið litið á þessa baráttu sem einkamál kvenna. UN Women á Íslandi hefur farið ólíkar leiðir til að ná til fjölbreytts hóps fólks á öllum aldri, ekki síst karlmanna í þeim tilgangi að opna augu þeirra fyrir því að kynjajafnrétti er hagur allra.

„Baráttan gegn kynjamisrétti og mismunun á grundvelli kyns fólks er langhlaup og felur í sér margþætta fræðslu almennings sem skilar sér ekki í beinum ávinningi á einni nóttu. Við hjá UN Women á Íslandi erum því gríðarlega stolt yfir því að Landsbankinn velji að leggja því langhlaupi lið og styrkja HeForShe hreyfingu UN Women. Það liggur í augum uppi nú í miðri #metoo byltingu að þolinmæðin er á þrotum og tíminn fyrir raunverulegt kynjajafnrétti er runninn upp. Þetta rausnarlega framlag Landsbankans gerir okkur svo sannarlegar kleift að svara kallinu, kalli bæði kvenna og karlmanna um raunverulegar og sýnilegar breytingar í jafnréttismálum hér á landi,” segir Stella Samúelsdóttir og færir Landsbankanum innilegar þakkir fyrir styrkinn og óskar um leið framúrskarandi fyrirtækum til hamingju með árangurinn.

Ísland getur orðið fyrsta landið til að láta raunverulegt kynjajafnrétti verða að veruleika og það á okkar tímum. Til að verða boðberar þeirra breytinga þurfum við öll að leggjast á eitt og búa til heim þar sem konur standa jafnfætis karlmönnum.

Related Posts