fbpx

Karlmenn í Istanbúl mótmæla í mínípilsum

Heim / Fréttir / Karlmenn í Istanbúl mótmæla í mínípilsum

10995139 1594146047489013 538713478 n

Hin tvítuga Ozgecan Aslan var myrt á hrottafenginn hátt eftir að hún streittist á móti þegar strætóbílstjóri nauðgaði henni.

Aslan var síðasti farþegi með strætó 11.febrúar síðastliðinn þegar bílstjórinn tók óvænta akstursstefnu, nauðgaði henni og barði hana til dauða með járnröri. Að því loknu brenndi hann lík hennar. Málið hefur vakið sterk viðbrögð og hvatt Tyrkja til umræðu um ofbeldi gegn konum. Í Istanbúl hafa karlmenn tekið sig saman og mótmælt morðinu og ofbeldi gegn konum í pilsum. Mótmælin hafa ekki síst farið fram á samfélagsmiðlum þar sem karlmenn hafa birt myndir af sér í pilsum og notað kassamerkið #ozgecanicinminietekgiy sem þýðir „Farðu í minipils fyrir Ozgecan.“ Aðrir hafa birt hvatningarorð til tyrkneskra kvenna.

Það merkilega hefur gerst, er að opinber umræða um ofbeldi gegn konum í Tyrklandi hefur færst í kastljósið og brýn umræða hefur myndast á meðal almennings og aðila sem eru ekki vanir að tjá sig um ofbeldi gegn konum. Tyrknesk yfirvöld hafa tekið óvenju mikinn þátt í umræðunni. Þingmenn íhaldssamasta stjórnmálaflokks Tyrklands, sem ku mæla fyrir karllægri menningu sem leiðir til ofbeldis gegn konum, hafa horfst í augu við vandann og viðurkennt hve stórt vandamál, ofbeldi gegn konum er í Tyrklandi. Ekki nóg með það heldur steig forsetinn, Recep Tayyip Erdogan, fram og sagði ofbeldi gegn konum vera flakandi sár Tyrklands. Dætur hans tvær heimsóttu fjölskyldu Aslans og forsætisráðherrann Ahmet Davutoglu hét því að hann og eiginkona hans myndu eiga frumkvæði að baráttu gegn ofbeldi gegn konum. Þess má geta að Emma Watson, velgjörðarráðherra UN Women, hefur líka tekið virkan þátt á twitter og hvatt tyrkneska karlmenn til að mótmæla.

UN Women í Evrópu og Mið-Asíu, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fremsta í flokki, fordæmir morðið á Özgecan Aslan. Í yfirlýsingunni segir að UN Women lýsi yfir fullum stuðningi við alla þá sem berjast gegn kynbundnu ofbeldi á götum Tyrklands.

Í yfirlýsingunni segir:

„Tyrkland var fyrst þjóða til að undirrita Istanbúl-sáttmálann sem tilheyrir þeim hnattrænu gildum um ofbeldi sem sett voru fram í Kvennasáttmálanum. Hann á að vera skilvirkt verkfæri sem nota ber til að gera heiminn að öruggari stað fyrir konur og stúlkur. … Samfélagið allt, sérstaklega karlmenn og drengir, geta lagt hönd á plóg við að ná settum markmiðum um að skapa samfélag sem er laust við allar gerðir ofbeldis gegn konum og stúlkum og heimilisofbeldi.“

UN Women vinnur ötullega gegn kynbundnu ofbeldi í heiminum auk þess sem samtökin sinna markvissri fræðslu fyrir karla og drengi um áhrif ofbeldis á líf kvenna og stúlkna.

Þú getur lagt hönd á plóg í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi með því að ganga í Systralag UN Women. Ágóðinn rennur í Styrktarsjóð UN Women, en sjóðurinn er sá eini innan SÞ sem vinnur eingöngu að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Related Posts