Fokk ofbeldi armbandið

Home / Fréttir / Fokk ofbeldi armbandið

myndVið kynnum með stolti Fokk ofbeldi armbandið sem er ætlað að vekja fólk til vitundar um útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum í dag: kynbundið ofbeldi.

UN Women vinnur ötullega að því að breyta þessu. Byltingin er hafin. Látum þetta verða árið þar sem breytingar eiga sér stað. Árið sem konur eru frjálsar og lifa án ótta við ofbeldi. UN Women er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur eingöngu að auknu kynjajafnrétti. Starf UN Women er eingöngu byggt á frjálsum fjárframlögum aðildarríkja SÞ, einkaaðilum og frá frjálsum félagasamtökum og því skiptir hver króna máli.
Armband clean fyrir vefinn
Þú getur tekið þátt í byltingunni með því að kaupa Fokk ofbeldi armbandið.  Ágóði armbandanna rennur í Styrktarsjóð SÞ til afnáms ofbeldis gegn konum.  Sjóðurinn styrkir um 80 verkefni í 70 löndum um þessar mundir og hefur bein áhrif á líf þriggja milljóna manna. Það er ósk UN Women á Íslandi að armbandið fái fólk til að tala um ofbeldi gegn konum. Með aukinni vitund eiga breytingar sér stað.
Af hverju „Fokk ofbeldi“?
Fokk ofbeldi armbandið er ætlað fullorðnum. Orðalagið er vísvitandi ögrandi og ætlað að hreyfa við fólki og stuðla að vitundarvakningu um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Ef orðalagið fer fyrir brjóstið á fólki þá er mikilvægt að muna að ein af hverjum þremur konum verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni  og 39 þúsund stúlkur eru þvingaðar í hjónaband á hverjum einasta degi eða ein á þriggja sekúndna fresti. Þetta mun aldrei breytast nema að við tökum höndum saman.
Lyfja er stoltur styrktaraðili UN Women og sér um sölu á Fokk ofbeldi armbandinu sem fæst í Lyfju, Apótekinu og Heilsuhúsinu um land allt dagana 6.- 20.febrúar. Armbandið kostar 2.000 krónur.

Staðreyndir um kynbundið ofbeldi
•    600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert
•    3.600 konum er nauðgað í Suður Afríku á hverjum einasta degi
•    Líklegra er að íslensk stúlka í 10.bekk á Íslandi hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni heldur en að hún reyki
•    64 milljónir stúlkna undir 18 ára aldri hafa verið þvingaðar í hjónaband um heim allan.  Það eru 39 þúsund stúlkur á hverjum einasta degi eða ein á þriggja sekúndna fresti.
•    140 milljónir stúlkna hafa þurft að þola afskurð á kynfærum sínum

Um herferðina „Fokk ofbeldi“
UN Women á Íslandi hefur unnið náið með Kötlu Rós Völudóttir og Ragnari Má Nikulássyni í gegnum tíðina. Þau áttu hugmyndina að herferðinni: að fá nokkra dansara til að mynda í sameiningu orðin FOKK OFBELDI með líkömum sínum. Það er mikilvægt að sýna á táknrænan hátt hvernig vinna þarf sameiginlega gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum. Í sameiningu mynda líkamarnir heild á tvo vegu; annars vegar mynda þeir tákn, orðin Fokk ofbeldi með líkömum sínum og hins vegar er sameining líkama þeirra tákn um þá sameinuðu krafta sem þarf til að gera okkur sterkari í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Saga Sig ljósmyndari myndaði dansflokkinn og er óhætt að segja að allir hafi skemmt sér stórvel í myndatökunni.

Milljarður rís – Feminísk flóðbylgja um land allt
UN Women á Íslandi vill ennfremur hvetja landsmenn til að mæta með Fokk ofbeldi armbandið á Milljarður rís föstudaginn 13. febrúar klukkan 12 í Hörpu, Hofi á Akureyri, félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði og Menntaskólanum á Ísafirði. Gefa ofbeldi fingurinn og dansa gegn kynbundnu ofbeldi! Hægt er að skrá sig á viðburðinn hér: http://bit.ly/bylting

Related Posts