fbpx

Fiðrildabolur UN Women

Heim / Fréttir / Fiðrildabolur UN Women

17

 Með vængjaslætti örsmárra fiðrilda í einum heimshluta er hægt að hafa áhrif á stór veðurkerfi hinum megin á hnettinum. Þetta hefur sannast í mörgum verkefnum UN Women og nýjasta afurðin er Fiðrildabolurinn.

ELLA og Landsbankinn lögðu til fjármagn til framleiðslu á fallegum bolum sem verða seldir fyrir jólin og allur ágóði sölunnar rennur í Styrktarsjóð Sameinuðu þjóðanna til afnáms ofbeldis gegn konum. Upphæðin sem  lögð var til verkefnisins margfaldast með fiðrildaáhrifum enda gáfu allir sem komu að verkefninu framlag sitt til sjóðsins.
Saga Sig kom að verkefninu með ljósmyndagaldri sem sjá má sem prentverk á bolnum:
„Þetta er kyrralífsmynd og skuggamynd af hlutum í fjörunni eins og steinum og kvistum sem sjórinn hefur kastað upp á ströndina. Úr þessu bjó ég til hálfgerðan glugga sem snýr út að hafinu og himninum,” segir Saga og heldur áfram: „Á myndinni má einnig sjá melgresi sem er uppáhaldsjurtin mín. Grasið er harðgert og vex hvar sem er, meira segja við strendur Íslands, þrátt fyrir sandfok, öldugang og aftakaveður. Mér finnst það táknrænt og fallegt. Rætur jurtarinnar sjá til þess að sandurinn fjúki ekki og rof myndist. Þessu náttúrulega tengslaneti er hægt að líkja við það net sem UN Women hefur myndað milli Íslendinga og kvenna annars staðar í heiminum. Það er ótrúlega mikilvægt að við stöndum saman því hver einasta rót fléttast saman og myndar stærra net hjálpar, allt þótt smátt sé,“ segir Saga um verk sitt.
Fiðrildabolurinn er seldur í takmörkuðu upplagi í verslun ELLU á Ingólfsstræti 5 og Mýrinni í Kringlunni. Bolurinn kostar 8.900 krónur, kemur í fjórum stærðum og hentar konum jafnt sem körlum.
Allur ágóði rennur í styrktarsjóð Sameinuðu þjóðanna til afnáms ofbeldis gegn konum. Hann er saumaður í Portúgal úr lífrænni bómull. Áhugasamir sem búa ekki á höfuðborgarsvæðinu geta sent póst á hanna@unwomen.is og við sendum bolinn í pósti. Hægt er að panta bol í gegnum tölvupóst til 18. desember.
Frábær jólagjöf sem gefur áfram!
UN Women vill koma á framfæri innilegum þökkum til WOW air, DHL og hönnunarteyminu Marandros.
Related Posts