fbpx

#BringBackOurGirls

Heim / Fréttir / #BringBackOurGirls
malalfund
Yfirlýsing Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýru UN Women, og Babatunde Odotimehin, framkvæmdastjóra Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna.Í dag munu yfir 200 skólastúlkur vakna enn á ný við martröð sem orð fá ekki lýst. Fyrir þremur vikum voru þær handsamaðar í skjóli nætur af vopnuðum mönnum sem klæddir voru sem hermenn og sögðust vilja vernda þær. Mennirnir, sem í raun voru herskáir öfgamenn, tóku þær í gíslingu og brenndu skólann þeirra til grunna. Þremur vikum síðar vitum við ekki enn um dvalarstað þeirra.
Árásin átti sér stað í Chibok, bæ í Norðaustur-Nígeríu. Ímyndaðu þér ef þetta hefði gerst í þínu samfélagi.
Þessi hræðilegi verknaður krefst þess að alþjóðasamfélagið taki höndum saman. Okkur ber skylda til að standa þétt við bak foreldra stúlknanna, nígersísku þjóðarinnar og stjórnvalda í landinu til þess að tryggja að stúlkurnar komi heilar heim aftur í örugga höfn.
Svo hrottaleg brot á réttindum kvenna og stúlkna, hverjum sem þau bitna á og hvar sem þau eiga sér stað, er ekki hægt að láta hjá líða. Við verðum öll sem eitt að rísa á fætur og grípa til aðgerða. Við eigum í kapphlaupi við tímann þar sem hvert andartak getur gert gæfumuninn því verðum við að senda skýr skilaboð um að svona illvirki lýðist ekki.
Við eigum aldrei að þurfa að gefa eftir þegar kemur að því að verja sjálfsögð mannréttindi okkar. Þrátt fyrir það búa konur og stúlkur daglega við kerfisbundin og gróf mannréttindabrot. Þær verða fyrir árásum, eru seldar mansali og hnepptar í þrælahald. Á heimsvísu mun ein af hverjum þremur konum upplifa kynbundið ofbeldi á lífsleiðinni.
Fyrir konur og stúlkur er ógnin sem stafar of ofbeldi veruleiki sem þær búa við í öllum samfélögum heimsins. Á átakasvæðum er óttinn við ofbeldi af höndum vopnaðra öfgamanna enn áþreifanlegri.
Ránið á nígerísku skólastúlkunum er skelfilegt og krefst tafarlausra aðgerða. Þrátt fyrir að sumum stúlknanna hafi tekist að sleppa og geti nú sagt frá afdrifum sínum eru flestar stúlknanna enn í haldi og ekki er vitað hvar þær eru niðurkomnar.
Foreldrar þeirra, kennarar og vinir krefjast þess að þær verði látnar lausar. Á sama tíma berast fréttir af því að þær hafi verið seldar sem brúðir eða sem kynlífsþrælar yfir landamæri Nígeríu.
Í Nígeríu og víða annars staðar hafa foreldrar stúlknanna auk rauðklæddra stuðningsmanna þeirra fyllt götur borga og krafist svara og aðgerða. Samfélagsmiðlar loga þar sem umheimurinn krefst þess að allt sé gert til að tryggja örugga endurkomu skólastúlknanna. Hasstöggin #BringBackOurGirls og #BringBackOurDaughters hafa dreifst hratt um netið.
Þessar stúlkur urðu skotmark öfgamannanna af þeirri einföldu ástæðu að þær voru í skóla þar sem þær nýttu sér grundvallarrétt sinn til menntunar. Þær eru gíslar íslamistasamtakanna Boko Haram.
Árásir á börn og skóla er aldrei hægt að réttlæta og skulu þær fordæmdar. Stúlkur og ungar konur eiga rétt á menntun og að geta setið í skóla án ótta við ofbeldi. Aðeins með þeim hætti geta þær notið réttinda sinna og jafnréttis. Skólar verða að vera griðastaður þar sem börn geta vaxið og dafnað í friði.
Konur og stúlkur eiga rétt á því að lifa án ótta við kúgun, ofsóknir og misrétti og taka fullan þátt í opinberu og borgaralegu lífi. Við megum ekki láta öfgamenn fótumtroða þessi réttindi og hindra samfélagslegar framfarir.
Við skipum okkur í fylkingu þeirra sem trúa því að öll mannsbörn standi jafnfætis þegar kemur að virðingu og mannréttindum. Við stöndum þétt við bak foreldra og fjölskyldna stúlknanna. Ef við bregðumst ekki við af fullum þunga munu þeir sem níðast á konum og stúlkum halda glæpum sínum áfram óáreittir.
Alþjóðasamfélagið verður að leggjast á eitt og gera allt sem í þess valdi stendur til að bjarga stúlkunum, sækja fangara þeirra til saka og það sem mestu máli skiptir, koma í veg fyrir að svona nokkuð geti nokkurn tíman gerst aftur.
http://www.unwomen.org/en/news/stories/2014/5/nigerian-girls-oped#sthash.Xum0CFtD.dpuf
Related Posts