„Athvarf UN Women er griðastaður fyrir mig“

Home / Fréttir / „Athvarf UN Women er griðastaður fyrir mig“

Þegar sýrlenska flóttakonan Maha Aasi Emm Ala´a kom fyrst á griðastað UN Women í Zaatari flóttamannbúðunum í Jórdaníu, glímdi hún við alvarlegt þunglyndi eftir að hafa misst eiginmann sinn. Hjá UN Women fékk Maha sálfræðiaðstoð, áfallahjálp og launaða vinnu sem klæðskeri á griðastöðum UN Women í búðunum.

„Ég og eiginmaður minn komum til Jórdaníu 2013 í þeirri von að finna frið og öryggi frá átökunum sem ríktu og ríkja enn í Sýrlandi. Eitt af okkar aðaláhyggjuefnum var hvort við gætum séð fyrir börnunum okkar. Allt breytist þó fyrir þremur árum þegar eiginmaður minn lést. Ég varð þunglynd, ráðvillt og það þyrmdi yfir mig. Ég var ekki einungis að glíma við sorgina, ég vissi hreint ekki hvernig ég gæti lifað af, og á mínum aldri hélt ég að það væri ómögulegt fyrir mig að fá starf.“

Þrátt fyrir að fólk sé komið út af átakasvæðum og í flóttamannabúðir þá eru ýmis vandamál sem blasa við fólki, til dæmis að framfleyta sér og fjölskyldum sínum. UN Women starfrækir griðastaði í flóttamannabúðum og veitir kvenmiðaða aðstoð.

Landsnefnd UN Women á Íslandi hefur styrkt ötullega við griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum.

Starfsemin á griðastöðum UN Women miðar að því að valdefla konur og stúlkur, virkja þær sem frumkvöðla og á vinnumarkaði. „Ég fékk launaða vinnu á griðastöðum UN Women og fékk starfsþjálfun og vinn nú sem klæðskeri. Athvarfið hefur ekki einungis hjálpað mér að sjá fyrir börnunum mínum, heldur er það sannur griðastaður fyrir mig. Ég er umkringd konum á sama aldri sem einnig eru að yfirstíga erfiðar aðstæður. Við erum stuðningskerfi fyrir hvor aðra og vinkonur,“ segir Maha. „Núna kenni ég öðrum konum í athvarfinu að sníða og sauma föt. Von mín er sú að dætur mínar sjái hversu langt ég hef komist þrátt fyrir aðstæður mínar og að saga mín verði þeim innblástur. Laun mín fara í að safna fyrir háskólagjöldum dóttur minnar. Dætur mínar geta átt bjarta framtíð og ég læt mig dreyma um framtíðina þegar ég mun geta ferðast og skoðað önnur lönd og kynnast nýjum menningarheimum,“ segir Maha.

„Skilaboð mín til kvenna eru að treysta alltaf á sjálfa sig. Notaðu hæfileika þína og krafta og þér eru allir vegir færir.“

Related Posts