fbpx

Ársskýrsla landsnefndar UN Women 2015

Heim / Fréttir / Ársskýrsla landsnefndar UN Women 2015

arsskyrsla5Ársskýrsla landsnefndar UN Women á Íslandi 2015 er komin út. Af umhverfisástæðum er hún eingöngu gefin út á rafrænu formi og aðgengileg á vef samtakanna. Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Árið 2015 var viðburðaríkt. Landsnefndin efndi til tveggja vikna átaks þegar Fokk ofbeldi-armbönd voru í sölu en þau seldust upp á tveimur vikum og rann ágóðinn í Styrktarsjóð SÞ til afnáms ofbeldis gegn konum. Milljarður rís var haldinn í Hörpu og víðar um land þar sem landsmenn dönsuðu af krafti gegn kynbundnu ofbeldi, landsnefndin stóð fyrir morgunverðarfundinum „Eru til karla- og kvennastörf?“, í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Festu þar sem Hvatningarverðlaun jafnréttismála voru veitt, efnt var til tveggja HeForShe átaka auk þess sem Phumzile Mlambo-Ngcuka sótti Ísland heim. Þar að auki stóð landsnefndin fyrir og tók þátt í fjölda annarra samstarfa og viðburða á árinu.
Starf samtakanna hefur vaxið ört á undanförnum árum, velunnurum UN Women á Íslandi fjölgaði hratt og örugglega eins og fyrri ár en 16% fleiri studdu samtökin með mánaðarlegum framlögum í lok árs en á sama tíma árið 2014. Þess má geta að landsnefndin sendi annað hæsta framlag allra landsnefnda til UN Women á síðasta ári.
Árið 2016 fer vel af stað. Það sem af er ári hefur landsnefndin sent tæpar 15 milljónir beint til verkefnis svæðisskrifstofu UN Women í Evrópu og Mið-Asíu sem gerir henni kleift að bregðast við neyð flóttakvenna á landamærastöðvum í Evrópu með viðeigandi aðgerðum með þarfir kvenna og barna þeirra í huga og bæta öryggi þeirra.
Við færum styrktaraðilum samtakanna kærar þakkir fyrir ríkulegan stuðning.

Related Posts