Anna Steinsen skrifaði bók til styrktar UN Women

Home / Fréttir / Anna Steinsen skrifaði bók til styrktar UN Women

Ofurhetjur í einn dag – er nýútkomin bók eftir Önnu Steinsen, tómstunda- og félagsmálafræðing. Anna hafði samband við UN Women á Íslandi fyrir skömmu og tilkynnti að allur ágóði af sölu bókarinnar rynni til verkefna UN Women.

„Ég er ein af þessum vel virku einstaklingum og þarf að hafa marga bolta á lofti á sama tíma, annars leiðist mér. Ég er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stunda nú mastersnám í sömu fræðum. Ég er einn af eigendum fyrirtækis sem heitir KVAN, þar sem ég starfa sem þjálfari, markþjálfi og fyrirlesari. Svo kenni ég eldri borgurum jóga einu sinni í viku.“

Hvernig kom það til, að skrifa þessa bók?

„Mér finnst ótrúlega gaman að segja sögur og er með ótal margar sögur í kollinum. Ég starfa mikið með börnum og unglingum við að styrkja sjálfsmynd og auka sjálfstraust og hef séð mýmörg dæmi um hvað það getur haft mikil áhrif á líðan einstaklinga við það að styrkja sjálfsmyndina. Það breytist allt til hins betra. Minn tilgangur með lífinu er að hafa góð áhrif á börn og unglinga og auðvitað alla í leiðinni. Einn daginn fór ég að hugsa um hvað ég gæti gert til að leggja mitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað. Mér datt því í hug að skrifa þessa bók og gefa allan ágóða til þeirra sem þurfa hvað mest á því að halda.“

Um hvað fjallar bókin?

„Hún fjallar um mikilvægi þess að sýna samkennd og vináttu. Hún fjallar um stúlku sem er að byrja í nýjum skóla, þekkir engan og vonast til þess af allri einlægni að eignast vinkonu eða vin. Hún kynnist svo stelpu sem hjálpar henni og styður þegar krakkarnir eru leiðinlegir við hana. Þær eiga stutt spjall um lífið og tilveruna og ákveða svo að leika ofurhetjur í einn dag og skemmta sér konunglega.“

Hvert er markmiðið með bókinni?

„Í fyrsta lagi að valdefla ungar stúlkur og í raun öll börn með lestri bókarinnar. Minna okkur á að við getum oft meira en við höldum. Það er svo mikilvægt að við drögum fram það besta í hvort öðru, hvetjum og hrósum og skoðum það jákvæða hjá öðrum. Styðjum hvert annað og veitum hjálparhönd,“ segir Anna og bætir við.

Hvernig geta foreldrar nýtt sér boðskap bókarinnar?

„Með því að ræða við börnin sín og fara yfir punktana sem eru aftast í bókinni. Hvernig við getum verið góðir vinir, hjálpað fólki í neyð og sett okkur í spor annarra. Þetta er líka frábær bók fyrir til dæmis kennara og fagaðila til þess að lesa fyrir börn.“

Nú rennur allur ágóði af sölu bókarinnar til UN Women, hvers vegna valdirðu UN Women?

„Mér finnst UN Women vera að gera frábæra hluti og er búin að vera styrktaraðili í mörg ár. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að valdefla konur og börn út í heimi og hafa áhrif. Þegar stúlkur og konur eru heilbrigðar og fá að njóta allra þeirra tækifæra sem lífið hefur upp á að bjóða, eru samfélög heilbrigð.“

Við hjá UN Women á Íslandi óskum Önnu innilega til hamingju með bókina og þökkum um leið fyrir þennan ómetanlega stuðning. Við hvetjum ykkur öll til að næla ykkur í eintak í verslun Elko í Lindum eða í Systrasamlaginu, Óðinsgötu. Bókin kostar 2.990 kr.

Related Posts