fbpx

Alþjóðlegur dagur stúlkubarnsins – 11. október

Heim / Dæmi um styrktarverkefni / Alþjóðlegur dagur stúlkubarnsins – 11. október

Fetura Mohammed edit 595 3Í tilefni af alþjóðlega dags stúlkubarnsins viljum við vekja athygli á því að 39 þúsund stúlkur undir 18 ára aldri eru þvingaðar í hjónaband á hverjum degi!

Ef ekkert verður að gert verða 140 milljónir stúlkna giftar á næstu 10 árum.
Snemmbúin og þvinguð hjónabönd eru alvarleg birtingamynd ofbeldis gegn konum og stúlkum en yfir 67 milljónir stúlkna hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur þrátt fyrir að hjúskaparlög kveði á lágmarksaldur. Rannsóknir sýna að meðalaldur barnabrúða er aðeins 14 ára.

Ástæður þess að stúlkur eru gefnar í hjónaband á unga aldri eru ekki einfaldar. Flestar hafa þó lítið eða ekkert val. Rótgróið kynjamisrétti, samfélagslegur þrýstingur, fátækt foreldra og skortur á tækifærum til menntunar og atvinnu eru þó helstu ástæður þessa víðtæka vanda.

Að gifta ungar stúlkur hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild. Stúlkur sem eru giftar fyrir 18 ára aldur eru sviptar tækifærinu til að öðlast menntun og atvinnutækifæri. Í raun má segja að þær verði þrælar tengdafjölskyldu sinnar eða að minnsta kosti eiginmanns síns. Þessi óhugnanlegi siður viðheldur fátækt og ofbeldi.

Saga Feturu
Framtíðardraumar Feturu, 14 ára stúlku í Kombolcha héraði í Eþíópíu, urðu að engu á einu augabragði þegar faðir hennar tilkynnti að gefa ætti hana í hjónaband eldri manni þegar hún var aðeins 14 ára gömul. Þá leitaði hún hjálpar í skólanum sínum og kom máli sínu fyrir dómstóla. Að lokum hafði hún betur. Í dag er Fetura 16 ára og stundar enn nám. Hún hafði hlotið fræðslu um eigin réttindi í skólanum sínum.
Í Kombolcha er starfrækt verkefni sem er styrkþegi Styrktarsjóðs Sameinuðu þjóðanna til afnáms ofbeldis gegn konum. Verkefnið miðar að því að auka þekkingu kvenna á réttindum sínum og berjast þannig gegn barnabrúðkaupum. Síðan verkefninu var ýtt úr vör árið 2009 hefur fjöldi kvenna fengið þjálfun á vegum samtakanna og hefur þeim víða tekist að uppræta siðinn í samvinnu við skóla, kvennahreyfingar, lögreglu og leiðtoga á hverjum stað fyrir sig.
„Ég ráðlegg vinum mínum að hætta ekki í námi og sýna hugrekki þegar kemur að því að verja réttindi sín.“ Segir Fetura sem nú er orðin 16 ára og er enn í námi. „Einnig hef ég tekið þátt í að vekja unga stráka til vitundar um baráttuna gegn barnabrúðkaupum því ég vil ekki horfa upp á systur mínar og vinkonur í sömu stöðu og ég var í.“ Lesa meira um Feturu hér.

Styrktu stúlkur eins og Feturu hér

Related Posts