fbpx

Áhrif kvenna á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Heim / Fréttir / Áhrif kvenna á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september 2015. Markmiðin eru sett fyrir árin 2016-2030 og eru sautján talsins með 169 undirmarkmið. Markmiðin eru algild og hafa aðildararíki SÞ skuldbundið sig til að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna. Fimmta markmiðið er að tryggja jafnrétti kynja og valdefla konur og stúlkur.

Í nýlegri skýrslu UN Women er kynjuðu sjónarhorni beitt á heimsmarkmiðin 17. Þar sem konur eru helmingur heimsbyggðar er nauðsynlegt að raddir kvenna fái hljómgrunn en það er grunnforsenda fyrir því hin 16 markmiðin náist. Fyrsta heimsmarkmiðið er að útrýma fátækt. Konur eru  fjórum sinnum líklegri til að búa við sárafátækt en karlmenn, og eru konur á barnsburðaraldri í sérstökum áættuhópi, því ábyrgð og ólaunuð vinna á heimilum og innan fjölskylda fellur yfirleitt í skaut kvenna.

Markmið sextán fjallar um frið og réttlæti fyrir alla. Forsenda þess að samfélög eru friðsæl er afnám alls ofbeldis, þar með talið ofbeldi gegn konum og stúlkum. En ein af hverjum fimm konum í heiminum hafa verið beittar ofbeldi af hálfu maka. Afnám ofbeldis stuðlar að auknu heilbrigði, sem styður við þriðja heimsmarkmiðið, en konur sem beittar eru kynferðis- eða líkamlegu ofbeldi eru líklegri til að smitast af HIV, upplifa þunglyndi eða ánetjast vímuefnum.

Skýrslan sýnir einnig fram á að þar sem konur koma að umhverfismálum aukast líkur á árangri í umhverfisvernd. Heimsmarkið þrettán snýr að loftlagsbreytingum, en þær snerta konur á annan hátt en karla. Sem dæmi þá bera konur oftast þungann af eldamennsku á heimilum og treysta oft á skóglendi og óendurvinnanlega orkugjafa til þess.

Mynd: Thomas Dworzak, Magnum 

Ein leið til að bæta hag kvenna er að nota sólarorku við eldamennsku. Konur hefðu þá meiri tíma og orku, þar sem þær þurfa ekki að safna eldiviði, og gætu sinnt eldamennsku í umhverfi sem ekki er heilsuspillandi.

Með þeim breytingum sem orðið hafa á veðurfari vegna loftsagsbreytinga hafa náttúrhamfarir einsog þurrkar, skógareldar og flóð stóraukist. Konur og stúlkur eru berskjaldaðar í slíkum aðstæðum og eru fjórtán sinnum líklegri en karlmenn til að deyja í slíkum hamförum.

Mikilvægt er að meta og skoða hvert og eitt heimsmarkmið út frá kynjasjónarmiðum og sjálfbærni ef við ætlum að ná heimsmarkmiðum SÞ fyrir árið 2030.  Sé það ekki gert næst seint fullkomið kynjajafnrétti og langvarandi árangur.

Kynna má sér efni skýrslunnar betur hér.

Related Posts