15 milljónir til kvenna á flótta

Home / Fréttir / 15 milljónir til kvenna á flótta

covermynd fbÍ tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna er ánægjulegt að segja frá því að tæpar 15 milljónir söfnuðust í söfnunni Konur á flótta ásamt sölu á Fokk ofbeldi húfu UN Women á Íslandi.

Það sem af er ári hefur landsnefnd UN Women á Íslandi staðið fyrir tveimur söfnunarátökum til styrktar bættum aðbúnaði flóttakvenna og barna þeirra á landamærastöðvum í Evrópu. Aldrei hafa fleiri konur verið á flótta frá því við lok seinni heimstyrjaldar og því miður virðist ekkert lát vera á straumnum. Í janúar og febrúar á þessu ári voru konur og börn í meirihluta meðal þeirra flóttamanna sem lögðu í hættuför yfir Miðjarðahafið í leit að öruggu hæli. Mæðra- og ungbarnavernd er verulega ábótavant á landamærastöðvunum en talið er að 12% flóttakvenna á leið yfir Miðjarðarhafið séu barnshafandi.
Í lok janúar efndi UN Women á Íslandi til sms-söfnunar þar sem landsmenn voru hvattir til að senda sms-ið KONUR í 1900. „Viðtökur landsmanna voru magnaðar og samtakamátturinn allsráðandi. Það er ómetanlegt að finna þennan samhug og greinilegt að almenningi er umhugað um hag flóttakvenna. UN Women gerði nýverið úttekt á landamærastöðvum Makedóníu og Serbíu, með þarfir flótta-kvenna í huga. Í ljós kom að aðstæður eru slæmar og mæta illa þörfum kvenna með börn sín.  Því var gríðarlega mikilvægt að ráðast í þessa söfnun og bæta aðstæður þessara varnarlausu hópa,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi. fokk ofbeldi margeir lítil
Um miðjan febrúar hófst svo sala á Fokk ofbeldi húfunni sem seld var í Pennanum Eymundsson um allt land. Óhætt er að segja að húfan hafi farið um líkt og eldur um sinu en hún seldist upp á aðeins fimm dögum og færri fengu en vildu. „Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið og enn rignir inn fyrirspurnum um Fokk ofbeldi húfuna. Það er virkilega ánægjulegt að finna þennan meðbyr ekki síst í ljósi þess að hann kemur frá fólki úr öllum áttum á ólíkum aldri,“ segir Inga Dóra.
Hagnaðurinn af Fokk ofbeldi húfunni og sms- söfnunin Konur á flótta gerir UN Women á Íslandi kleift að senda tæpar 15 milljónir beint til þessa verkefnis svæðisskrifstofu Evrópu og Mið-Asíu þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er í broddi fylkingar. Þeir fjármunir sem Íslendingar hafa lagt af mörkum á innan við tveimur mánuðum gerir svæðisskrifstofunni kleift  að bregðast við neyð flóttakvennanna með viðeigandi aðgerðum með þarfir kvenna og barna þeirra í huga og bæta öryggi þeirra.
Enn er hægt að styrkja verkefnið með því að senda sms-ið KONUR í 1900.

Related Posts