Kjarnaframlög til UN Women gera stofnuninni kleift að starfa á tryggum grunni á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Þau eru afar mikilvæg ungri stofnun eins og UN Women sem er að vaxa og festa sig í sessi. Með kjarnaframlögum er mögulegt að halda á lofti verkefnum sem hafa lítinn fjárhagslegan stuðning og veita fé til aðkallandi verkefna á svæðum þar sem þörfin er brýn og bregðast þarf skjótt við, t.d. vegna átaka, náttúruhamfara eða farsótta.

Dæmi um verkefni styrkt með kjarnaframlagi er vitundarvakning um smitleiðir Ebólu í Sierra Leone og kynjamiðuð neyðaraðstoð í kjölfar jarðskjálftans í Nepal þar sem hreinlætis- og nauðsynjavörum á borð við dömubindi, luktir og útvörp var dreift til kvenna.

Ýmis ríki eru stærstu styrkveitendur kjarnaframlaga UN Women. Árið 2015 tróndi Bretland á toppnum yfir hæstu framlögin en Sviss og Finnland fylgdu fast á eftir. Kjarnaframlögin bera vott um skuldbindingu ríkja til þess að efla stöðu kvenna um allan heim og koma á fullkomnu jafnrétti. Þess ber að geta að helmingur allra framlaga landsnefndarinnar rennur í kjarnaframlög.