fbpx

Systir mánaðarins – júní 2012

Heim / Fréttir / Systir mánaðarins – júní 2012

Í dag eru tæplega 2400 manns sem styrkja starf UN Women mánaðarlega. Systralag UN Women á Íslandi er helsta fjáröflunarleið samtakanna. Styrktaraðilar Systralagsins eru á öllum aldri og úr hinum ýmsum áttum. Í ár viljum við kynnast styrktaraðilum okkar nánar og um leið skapa umræðu um jafnrétti kynjanna.Sigrun_s

Nafn? Sigrún Lilja Guðjónsdóttir 

Starf? Stofnandi og framkvæmdastjóri Gyðju Collection

Aldur? 30 ára

Hvenær gekkstu í Systralagið? Í byrjun maí 2012

Af hverju að styrkja konur? Jafnrétti kvenna hérlendis og um heim allan er mér mjög hugleikið málefni. Í gegnum starfið mitt hef ég fengið tækifæri til að koma fram og tala við margar konur allstaðar að úr heiminum og nýti ég þá tækifærið við að gera ávallt mitt besta við að stuðla að frumkvæði kvenna, virkja konur til athafna, til að vinna að draumum sínum, þrám og markmiðum. Stuðningur við konur er eitt af mikilvægari málefnum heimsins. Konur eiga börnin, ala þau upp og fæða að mestu, afla oft á tíðum matar fyrir heimilið og þess háttar.Því gefur það að skilja að ef kona er fjárhagslega sjálfstæð þá er grunnurinn heilbrigður sem hefur strax keðjuverkandi áhrif til hennar afkomenda, til komandi kynslóða og út í samfélagið. Til dæmis eru staðreyndirnar þær að 65% af vinnu í heiminum er gerð af konum en eingöngu 12% af greiddum launum í heiminum fara til kvenna og eingöngu 2% af eignum í heiminum eru í eigu kvenna. UN Women er að gera aðdáunarverða hluti í jafnréttismálum bæði hérlendis sem og erlendis og ætti stuðningur við konur sem aðstoðar þær við að verða sjálfbærar að vera eitt af höfuðmálum hvers þjóðfélags, með því er verið að vinna í rót vandans.

Hvað þýðir jafnrétti fyrir þér? Jafnrétti er þegar allir einstaklingar eiga jafna möguleika í samfélaginu óháð kynferði, litarhætti, trúarskoðun og kynhneigð.

Hvað telur þú að þurfi að gera til að ná fram jafnrétti í heiminum? Það er mikilvægt að horfa til lengri tíma því að góðir hlutir gerast hægt. Það er t.d. ekki nóg að breyta lögum því að hugmyndafræði feðraveldisins er svo sterk, það þarf að fara í þjóðfélagslega rót vandans og vinna þaðan. Hafa þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi – Promote Gender Equality and Empower Women = vinna að jafnrétti kynjanna og stuðla að frumkvæði kvenna. Við konur erum sjálfar einna mikilvægastar í þessu. Við þurfum að styðja við bakið á hvor annari og systrum okkar um heim allan eins og hægt er og hvetja hvor aðra.
Við Íslendingar erum mjög framarlega í jafnréttismálum en það má samt alltaf gott bæta. Hér á Íslandi er til dæmis fjármálaheimurinn ennþá mikill karlaheimur og ég skynja einna helst þar að maður er að ryðja brautir fyrir komandi kynslóðir kvenna hér á landi. Einnig finnst mér mikilvægt að vernda ávallt ímynd femínistans. Mér þykir til dæmis leiðinlegt þegar fólk leyfir sér að nota feminíska hugmyndafræði sem skotleyfi á aðrar manneskjur og ég held að það geti svert ímynd femínista, sem er slæmt þar sem femínisminn er grasrótarhreyfing jafnréttisstefnunnar og á allt gott umtal skilið. Gagnrýnin getur alveg átt rétt á sér en það þarf alltaf að passa að vanda vel til og gæta hófs því aðgát skal ávallt höfð í nærveru sálar. Þegar upp er staðið er það afar mikilvægt að samfélagið okkar brjóti konur ekki niður þrátt fyrir ólíkar skoðanir, útlit eða viðmið, heldur byggi þær upp, hvetji til athafna og stuðli að frumkvæði kvenna.

Related Posts