fbpx

Orkuveita Reykjavíkur hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála í ár

Heim / Fréttir / Orkuveita Reykjavíkur hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála í ár

hvatn.verdlaun2Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, veitti Orkuveitu Reykjavíkur, Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2015 á morgunfundinum „Eru til karla- og kvennastörf?“ á Nauthóli í morgun.

Í áliti dómnefndar segir: „Fyrirtækið hefur stigið veigamikil skref og er í markvissri vinnu við að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum fyrirtækisins. Fyrirtækið vill jafnframt vera öðrum fyrirtækjum fyrirmynd í jafnréttismálum og vill leggja sitt að mörkum til að breyta viðhorfum til staðalímynda kynjanna enda er trú þess að kynbundið náms- og starfsval sé félagsmótun en ekki náttúrulögmál. Því hefur verið lögð rík áhersla á að skapa umhverfi sem er aðlaðandi fyrir bæði karla og konur að starfa í. Til að styrkja eigin innviði sem og samfélagið í heild, hefur fyrirtækið stuðlað að framgöngu fjölda verkefna í samstarfi við menntastofnanir, til að fylgja eftir því markmiði að efla hlut kvenna í karllægum geira. Þannig hefur náðst að bæta kynjahlutföll á öllum sviðum fyrirtækisins.“

Lesa meira


Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur veitti verðlaununum viðtöku og hvatti öll fyrirtæki til að fylgja jafnréttisáætlunum í orði jafnt og í borði: „Við ákváðum að eyða kynbundnum launamun innan Orkuveitunnar. Það er ákvörðun að eyða launamun, alveg eins og það er ákvörðun að fjölga konum í stjórnunarstöðum. Það er ekki nóg að aðhyllast jafnrétti, heldur þarf að fremja það,“ sagði Bjarni og bætti við: „Ég er ekki með neina rannsókn því til stuðnings en fullyrði engu að síður að blandaðir vinnustaðir eru betri, skemmtilegri og betur reknir. Ákvarðanir eru ekki teknar fyrirfram og  tilkynntar á fundum heldur teknar við fundarborðið. Ef horft er til eineltis og kynbundins áreitis, þá hverfur það ósjálfrátt. Fundarborð með jafnt kynjahlutfall virkar því eins og sjálfhreinsibúnaður,“ sagði Bjarni og brosti.
Þess má geta að í dómnefnd sátu Inga Jóna Þórðardóttir, formaður, fyrir hönd atvinnuvegaráðuneytisins, Soffía Sigurgeirsdóttir, fyrir hönd landsnefndar UN Women á Íslandi, Bergþóra Halldórsdóttir, fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins og Randver C. Fleckenstein, fyrir hönd Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð.
Atvinnuvegaráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð stóðu fyrir morgunfundinum þar sem rætt var um hvernig fyrirtæki hafa náð að brjótast út úr hefðbundinni kynjaskiptingu í störfum. Á fundinum sögðu Rannveig Rist, forstjóri  Rio Tinto Alcan og handhafi Hvatningarverðlauna jafnréttismála á síðasta ári, og Birna Bragadóttir, starfsþróunarstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, frá því hvernig unnið er að jafnrétti í þeirra fyrirtækjum og hvaða leiðir séu færar til að hafa jafna kynjahlutfall í störfum. Einnig fjallaði Sigurður Snævarr, hagfræðingur, um niðurstöður nýlegrar rannsóknar um kynbundinn launamun sem unnin var af aðgerðarhópi stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.
Markmiðið með Hvatningarverðlaununum er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama.
Ráðstefnan var vel sótt og lífleg umræða um jafnréttismál átti sér stað að erindum loknum.

Lesa minna

Related Posts