fbpx

„Mér var sagt að fótbolti væri ekki fyrir konur“

Heim / Fréttir / „Mér var sagt að fótbolti væri ekki fyrir konur“

Brasilíska knattspyrnukonan Marta Vieira da Silva spilar með landsliði sínu á HM í knattspyrnu kvenna í sumar en auk þess að vera ein besta knattspyrnukona heims er hún velgjörðarsendiherra UN Women. Marta notar rödd sína til að hvetja konur og stúlkur til að mölbrjóta glerveggi, sigrast á hindrunum og elta drauma sína, hverja sem þeir kunna að vera.

Marta ólst upp í smáu þorpi í Brasilíu og byrjaði að spila fótbolta þegar hún var 7 ára gömul. „Á þessum tíma voru engar aðrar stelpur í þorpinu mínu að spila fótbolta. Mér var alltaf sagt að fótbolti væri ekki fyrir konur og að fjölskyldan mín ætti ekki að leyfa mér að spila. Fólk sagði að ég myndi aldrei ná árangri, að ég væri ekki nægilega góð“. Hún skildi ekki hvað fólk gæti mögulega haft á móti því að hún spilaði fótbolta en ákvað að svara fyrir sig á vellinum.

Í dag er Marta talin vera ein besta knattspyrnukona allra tíma og í fyrra var hún valin besti leikmaður FIFA sjötta árið í röð. Í krafti stöðu sinnar og reynslu vill Marta veita konum og stúlkum innblástur og skapa tækifæri svo að næstu kynslóðir kvenna þurfi ekki að ganga í gegnum það sama og hún. „Stærsta áskorunin fyrir konur í íþróttum nú til dags er skortur á fjármagni og tækifærum til iðkunar. Konur fá minni stuðning og færri valmöguleika sem hindrar þær í því að uppgötva hæfileika sína á sviði íþrótta“.

Í heimalandi Mörtu eru stúlkur sex sinnum líklegri til að hætta í námi og íþróttum en karlkyns jafnaldrar þeirra en fimmta hvert barn sem fæðist í Brasilíu er borið af móður undir 19 ára aldri. UN Women stendur fyrir verkefni í Ríó sem veitir stúlkum í fátækari hverfum borgarinnar aðgang að öruggum svæðum þar sem þær hljóta leiðtogaþjálfun og menntun í gegnum íþróttir. Hér má lesa nánar um verkefnið sem hefur nú þegar veitt 850 stúlkum aukinn kraft og tækifæri og sent þær sterkari út í lífið. Með því að kaupa þessa gjöf býður þú 11 stúlkum í Ríó upp á leiðtogaþjálfun.

Related Posts