fbpx

Kynslóð jafnréttis: Breytum heiminum í gegnum skólakerfið

Heim / Fréttir / Kynslóð jafnréttis: Breytum heiminum í gegnum skólakerfið

Kynslóð jafnréttisHanna Björg Vilhjálmsdóttir er femínisti og kynjafræðikennari við Borgarholtsskóla. Hún hefur lengi barist fyrir því að kynja- og jafnréttisfræðsla verði efld innan menntakerfisins svo börn og ungmenni hljóti þjálfun í valdeflingu og gagnrýninni hugsun. Hanna Björg ræddi jafnrétti, femínisma og mikilvægi menntunar í jafnréttisbaráttunni við UN Women Íslandi.

 

Hvað er jafnrétti fyrir þér?

„Jafnrétti fyrir mér er tvennt: sanngirni og réttlæti. Mér finnst jafnrétti hverfast um það.“

Er eitthvað eftirminnilegt atvik sem hefur fengið þig til að endurhugsa hugmyndir þínar um jafnrétti?

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir„Trans nemendur mínir hafa kennt mér svo margt dýrmætt og fengið mig til að skilja heiminn og fólk betur. Ætli það séu ekki þau sem hafa haft mestu áhrifin á hugmyndir mínar um jafnrétti. Ég byrjaði að kenna kynja- og jafnréttisfræði árið 2007 og mig minnir að umræðan um kynvitund og kynsegin hafi komið fram skömmu síðar. Í mínum huga er engin kynjafræði án hinsegin umræðunnar, alveg eins og það er engin kynjafræði án kynfræðslu. Það er ekki hægt að slíta þetta tvennt í sundur; kynjafræðina og hinseginfræðin. Helsta breytingin er sú að hinseginfræðin eru orðin eins og rauður þráður í gegnum námsefnið auk þess að vera sérstakur efnisþáttur.“

Af hverju berst þú fyrir jafnrétti?

„Ég hef verið femínisti mjög lengi á þann hátt að ég hef verið meðvituð um skekkjuna allt í kringum mig, en baráttuandinn kom með starfinu mínu. Þegar ég kynnist nemendum mínum, sem kenna mér endalaust og eru sífellt að næra mig, þá varð þetta meiri og meiri ástríða og stærri hluti af mér. Ég trúi því að við getum breytt heiminum í gegnum skólagerfið, það er bara þannig.“

UN Women berst ekki aðeins fyrir réttindum kvenna, heldur einnig LGBTQ réttindum og annarra jaðarsettra hópa undir slagorðinu „Skiljum engan eftir“. Í feminískri umræðu hefur stundum verið tekist á um hvort einhver árangur náist í jafnréttisbaráttu kvenna þegar líka er verið að berjast fyrir réttindum annarra hópa. Aðrir segja UN Women best til þess fallið að leiða þessa baráttu vegna tengsla sinna við grasrótina og vegna þess að jafnréttisbarátta okkar allra skarast á. Hvaða skoðun hefur þú á þessari umræðu?

„Það er bara eitt rétt svar við þessu og ég er með það!“ segir Hanna Björg og hlær. „Femínísk barátta hófst í tvíhyggjunni og þeirri hugmyndafræði að það séu bara tvö kyn og að karlar ráði yfir konum. Konurnar risu upp gegn þeirri hugmyndafræði og þar byrjaði femínisminn. Femínistar hafa þó í gegnum tíðina sett á blað baráttu annarra minnihlutahópa og ég held að það sé ekkert hægt að taka kvennabaráttuna út fyrir sviga. Ég held að sá tími sé bara liðinn. Auðvitað er það þannig að konur eru helmingur mannkyns og kynjabreytan er því miðlæg en ég held að femínísk barátta geti ekki eingöngu verið á forsendum kvenna, heldur þurfi að vera víðtækari. Ég hef ekkert alltaf verið þar sjálf, ég er sjálf að læra og öðlast meiri auðmýkt gagnvart öðrum hópum því auðvitað er ég gagnkynhneigð, ófötluð kona og bý við réttindi sem slík. En mín niðurstaða er sú að við þurfum að vera inklúsíf í jafnréttisbaráttunni.“

 

„Til að geta skilið samfélagið sitt og haft áhrif á það, þarftu að geta borið kennsl á það sem er skakkt og rangt og það gerirðu ekki nema með því að þjálfa gagnrýnið auga.“

 

Menntun er þjálfun í gagnrýnni hugsun

Jafnrétti er Hönnu Björgu hugleikið og telur hún mikla þörf á að „jafnréttisvæða“ íslenskt menntakerfi með aukinni fræðslu til kennara svo þeir geti beitt jafnréttisnæmi í starfi sínu, hvort sem það eigi við endurmat á kennslugögnum eða í samskiptum við nemendur.  

„Í mínum huga ættu allir kennarar að fá kynjafræði- og jafnréttismenntun og öðlast jafnréttisnæmi. En svo þurfum við líka að sérmennta kennara til að kenna fagið sem slíkt,“ segir hún. „Þetta þarf að gerast á öllum skólasviðum, allt frá leikskóla og upp úr. En það er ekki nóg að mennta bara kennarana, heldur þurfa allir sem vinna með börnum á einhvern hátt að hljóta þessa menntun. Það þýðir ekkert að veita börnum ákveðna þekkingu og þjálfun í skólastarfinu og svo er grafið undan henni annars staðar. Þetta þarf allt að haldast í hendur og við þurfum öll að vera saman í þessu og vinna að sama markmiði svo að nemandinn hljóti þjálfun í valdeflingu og gagnrýnni hugsun,“ útskýrir hún.

„Svo þurfum við líka að bjóða upp á nám fyrir börnin þar sem hlutirnir eru settir í samhengi, valdatengsl eru skoðuð og krakkar læra um mörk – sín eigin og annarra – þar sem þau læra um fjölbreytileikann og að við þurfum að hugsa um alla. Við þurfum að þjálfa krakkana frá ungum aldri til að taka tillit til náungans og fræða þau um forréttindablindu, tilkall til valds og áhrifa og að það sé enginn einn merkilegri en næsta manneskja. Þetta þurfa þau að alast upp við síendurtekið í gegnum skólakerfið. Til að geta skilið samfélagið sitt og haft áhrif á það, þarftu að geta borið kennsl á það sem er skakkt og rangt og það gerirðu ekki nema með því að þjálfa gagnrýnið auga og skólakerfið á auðvitað að gera það. Ef eitthvað flokkast sem menntun, þá er það þjálfun í gagnrýnni hugsun. Það er algjört lykilatriði!“

 

Ísland leiðir eitt sex aðgerðabandalaga í tengslum við jafnréttisátakið Kynslóð jafnréttis, sem stýrt er af UN Women. Ísland hefur forystu í aðgerðabandalagi gegn kynbundnu ofbeldi og er markmiðið að sameinast um úrbætur á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur. Hversu mikilvægt er það að litla Ísland sé leiðandi á alþjóðavettvangi í svo stórum og mikilvægum málaflokki?

„Ég get ekki lýst því hversu stolt ég er og hversu eflandi það er fyrir okkur að vera treyst fyrir þessu. Ég er sannfærð að við munum standa undir því trausti, því að mörgu leyti erum við best í heimi í jafnrétti. Við erum til dæmis komin mjög langt í jafnréttisfræðslu í skólakerfinu. Og sjáðu bara hvað Gay Pride og Druslugangan eru orðin stór hérna! Jafnréttisumræðan er orðin mjög ríkur þáttur í almennri samfélagsumræðu á Íslandi og ég er ekki í vafa um að við verðum sterkir leiðtogar í þessari umræðu og það mun efla okkur að vera treyst fyrir þessu. Við búum yfir mikilli þekkingu hér og þufum bara að sameina krafta úr ólíkum áttum og þá munum við gera brilliant hluti,“ segir Hanna Björg.

 

Erum öll ofurseld menningunniHanna Björg Vilhjálmsdóttir

Í umræðunni um kynbundið ofbeldi hafa brotaþolar og femínistar bent á að engu verði ágengt í þeim málefnum nema með því að byrgja brunninn og ná til gerenda. Hvernig gerum við það?

„Það sem við þurfum að gera er að hefja samtalið um kynbundið ofbeldi, klám og mörk nógu snemma. Við þurfum að taka þessa sársaukafullu umræðu um hversu skaðlegar afleiðingar kynferðisofbeldi hefur og hversu hræðilega algengt kynbundið ofbeldi er. Það þarf að tala um mörk og forréttindi á fallegan hátt og án áskana og upphrópana. Krakkarnir okkar fá skaðleg skilaboð út um allt og það eitt er nóg til að fá hvern sem er til að haga sér eins og fífl. Ég trúi því að þegar við erum öll orðin nógu upplýst og valdefld og gagnrýnin að þá munum við uppræta þetta saman. Við verðum bara að trúa því , því það er óásættanlegt að búa í þessum veruleika eins og hann er núna.“

„Drengir hafa margir upplifað þessar umræður sem árás á sig. En þetta snýst ekki um þá, heldur erum við að gagnrýna menningu. Þetta er mikilvægt, því jafnréttisumræðan skilar okkur engu úr skotgröfunum. Við þurfum að tala um þetta fallega og einblína á menninguna sem við erum öll ofurseld. Stelpurnar mínar eiga heldur ekkert að upplifa sig sem fórnarlömb! Það þarf að ræða þetta öðruvísi og það verður að gera þetta vel. Það er hægt að taka hvaða umræðu sem er í kennslustofunni svo lengi sem þú gerir það vel og ígrundað og nemendur viti að þér þyki vænt um þá og að þú berir virðingu fyrir þeim og þeirra tíma.“

 

Hanna Björg segir kjörið að taka samtalið um kynbundið ofbeldi í skóalstofunni því „þar verða töfrarnir“, en einnig vegna þess að ekki sé hægt að ætlast til þess að allir foreldrar hafi forsendur til þess að ræða slík mál við börn sín.

„Mér finnst hafa orðið bakslag í þessum málaflokki og það þarf að taka þetta föstum tökum í skólakerfinu. Þar er viðhorfum annað hvort haldið við, eða breytt. Við getum heldur ekki ætlast til þess að allir foreldrar hafi forsendur til þess að tækla þetta, en skólakerfið á að hafa það og á að taka umræðuna um mörkin, valdeflingu, kynfræðslu og klámið. Það þarf bara að þjálfa þetta með krökkunum. Valdefling er bara þjálfun. Jafnrétti verður ekki náð í neinu samfélagi, nema skólakerfið komi inn í það með afgerandi hætti. Hvar í ósköpunum eigum við að breyta viðhorfum ef ekki í skólakerfinu? Þar ertu með nemendur í einhver tólf til fjórtán ár. Lögin og námsskrárnar segja að við eigum að tækla þetta og við erum auðvitað byrjuð, því það eru mjög margir kennarar sem eru mjög jafnréttissinnaðir í sinni nálgun á efnið. En betur má ef duga skal.“

 

Tvö skref fram og svo önnur tvö

Hvaða væntingar berð þú til þinnar kynslóðar þegar kemur að baráttunni fyrir jafnrétti?

„Ef ég fengi að ráða öllu í einn dag, þá mundi ég fá fólk til að hlusta. Fólk þarf að hlusta á brotaþola, jaðarsett fólk, nýja Íslendinga, flóttafólk. Það þarf að hlusta á veruleika þessa fólks og taka hann inn og ígrunda. Það er það sem mín kynslóð þarf að gera, við þurfum að hlusta. Við komumst mjög langt á því að hlusta og hugsa. Því viljum við ekki öll vera siðlegar manneskjur? Er siðlegt að hundsa heilu hópana og láta eins og þau séu ekki til? Er það að vera siðleg manneskja?“

 

„Til þess að næsta kynslóð verði öðruvísi þenkjandi dómarar, öðruvísi þenkjandi þingmenn, ráðherrar og borgarar þarf meiri jafnréttismenntun á öll skólastig. Núna viljum við fá tvö skref fram og svo önnur tvö.“

 

En hvað mundirðu gefa næstu kynslóð til að hún þurfi ekki að halda baráttunni um jafnrétti áfram á sama stað og við erum í dag?

„Kynslóðirnar hafa farið eitt skref áfram og tvö skref aftur í jafnréttisbaráttunni. Og sagan sýnir að þetta er ótrúlega erfið barátta. Bríet og margar aðrar stórar konur mundu snúa sér við í gröfinni ef þær vissu að við værum ekki komin lengra en þetta! En það sem við þurfum að gera, og ég veit að ég hljóma eins og biluð plata, er að veita næstu kynslóð meiri jafnréttismenntun. Ég vil viðhorfabreytingu til alls sem varðar réttlæti og sanngirni í samfélaginu. Ég vil sterkari borgarvitund; við erum hérna öll saman og það þarf að vera pláss fyrir hvert einasta okkar. Og okkur þarf að langa það, það má ekki kreista þetta fram. Og ég held að við komumst þangað ef við vitum nógu mikið, ef okkur er kennt að setja hlutina í samhengi og ef við göngum öll í takt þar, þá væri það stærsti, einstaki þátturinn sem ég mundi gefa næstu kynslóð. En svo þurfum við að breyta valdahlutföllunum í samfélaginu, við þurfum að fá fjölbreytileika inn á alþingi og í allar bæjar- og sveitastjórnir og breyta þessu dómskerfi. Því meira sem ég skoða hvernig kynferðisbrot eru meðhöndluð í dómskerfinu, því sjokkeraðri verð ég. Til þess að næsta kynslóð verði öðruvísi þenkjandi dómarar, öðruvísi þenkjandi þingmenn, ráðherrar og borgarar þarf meiri jafnréttismenntun á öll skólastig. Núna viljum við fá tvö skref fram og svo önnur tvö.“

 

Töluvert bakslag varð í jafnréttisbaráttunni í kjölfar COVID-19 og þeirra aðgerða sem gripið var til vegna faraldursins: aukning varð á heimilisofbeldi, konur voru líklegri til að missa vinnuna og líklegri til að taka á sig ólaunuð umönnunarstörf. Er einhver von um að breytingar náist í framtíðinni þegar jafnrétti stendur svona höllum fæti?

„Það er von! Ef við horfum á þetta út frá alþjóðlegu sjónarhorni þá verður maður næstum örmagna við tilhugsunina. En við þurfum bara að halda áfram. Á sama tíma og við höldum áfram að greina vandann þá þurfum við líka að næra okkur með því að horfa til þess sem er jákvætt af því það er svo mikilvægt að við brennum ekki út því við sjáum bara það sem þarf að laga. Við þurfum að geta gert hvoru tveggja, við þurfum að næra okkur með því að skoða það sem gengur vel en við þurfum einnig að halda áfram að greina vandann. UN Women hefur gert þetta svo fallega – konur á vettvangi skilgreina vandann sjálfar og svo fá þær það sem þær þurfa til að gera það sem þær vilja, því þær þekkja sinn veruleika. Ég elska þessa hugmyndafræði UN Women og ég held að hún hafi gagnast svo vel. Það er auðvitað mikilvægt að rækta garðinn okkar en það er engu minna mikilvægt að horfa út á við. Við erum rík þjóð og við þurfum að hjálpa öðrum. Það er von. Það er alltaf von!“

Hægt er að horfa á allt viðtalið við Hönnu Björgu hér.

Related Posts
Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir