Konur með albínisma í stöðugri lífshættu

Home / Óflokkað / Konur með albínisma í stöðugri lífshættu

Í dag er alþjóðadagur fólks með albínisma. Konur og stúlkur með albínisma er hópur sem fer stækkandi í Malaví. Þær eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir kynbundnu ofbeldi og þurfa að þola margþætta mismunun.

„Stærsta vandamálið er andlega ofbeldið sem ég verð fyrir“

UN Women á Íslandi heimsóttu Malaví og hittu Raheemu við gerð sjónvarpsþáttarins Stúlka – Ekki brúður sem var sýndur á RÚV í fyrra. Þegar Raheema var aðeins sextán ára gömul var hún neydd til að giftast mun eldri manni sem hún hafði aldrei hitt áður. Hún var önnur tveggja eiginkvenna mannsins og átti með honum tvö börn en hann varði litlum tíma á heimili Raheemu og barnanna. Einn daginn kom hann heim til hennar, hirti eigur þeirra og yfirgaf þau.

„Mín helsta hindrun er að ég get ekki unnið fyrir okkur á akrinum. Húðin mín þolir ekki sólina. Ég fæ strax bólur og útbrot. Yfirleitt get ég ekkert farið út því sólin er svo sterk. Ég get því ekkert unnið en akurinn er mitt eina tækifæri til að afla tekna. Ég á því enga peninga til að kaupa mat og aðrar nauðsynjar.“

„Stærsta vandamálið er andlega ofbeldið sem ég verð fyrir. Fólk kallar mig peninga, þau hóta mér og segja: við getum drepið þig og selt líkamshluta þína. Við getum drepið þig, skorið þig í bita, selt þá og orðið moldrík. Þessar hótanir eru það erfiðasta.“

Mikil aukning orðið á morðum og árásum á fólk með albínisma

Sú hjátrú er ríkjandi í Malaví að bein og líkamar fólks með albínisma færi þér mikinn auð. Fólk með albínisma stendur frammi fyrir mikilli ógn og hótunum en mikil aukning hefur orðið á morðum og árásum á fólk með albínisma að undanförnu. UN Women er á staðnum og starfar með fólki með albínisma í Malaví og hefur undanfarin tvö ár veitt um 600 manns aðstoð.

„Ég bið í bænum mínum fyrir friðsamlegu lífi og myndi óska að lífið þyrfti ekki að vera svona erfitt. “

Konur eins og Raheema búa við grimman veruleika. Ekki eingöngu eru þær óvinnufærar vegna sólarinnar, heldur lifa þær í stöðugum ótta um líf sitt og barna sinna. Starfsfólk UN Women í Malaví leggur allt kapp á að breyta viðhorfum almennings, svo að ofsóknir og ofbeldi gegn konum eins og Raheemu verði afnumið.

TAKTU ÞÁTT

Þú getur hjálpað konum eins og Raheemu með því að gerast ljósberi UN Women
Related Posts